138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:18]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu um stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og skattamálum. Auðvitað er það svo að það stenst enga skoðun hjá hæstv. fjármálaráðherra að skattstefna ríkisstjórnarinnar sé að hjálpa til. Það er rétt að við erum að ná nokkrum árangri við að draga úr ríkisútgjöldunum, það hefur verið breið samstaða um það á þinginu að leggja áherslu á að draga úr ríkisútgjöldum. Við í Sjálfstæðisflokknum lögðum fram frekari tillögur en ríkisstjórnin sjálf var tilbúin til að tefla fram við það að draga úr ríkisútgjöldum við gerð fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. En stóra spurningin er þessi: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að vaxa út úr þessum vanda? Við þurfum að vaxa inn í framtíðina. Við þurfum að skapa hagvöxt og nýjustu tölur vekja mikinn ugg. Það er mat Samtaka atvinnulífsins að við þurfum að meðaltali um 5% árlegan hagvöxt á árunum 2011–2015 eigi að endurheimta þau störf sem hér hafa glatast í hruninu, um 5% árlegan hagvöxt, og við erum enn þá í samdrætti.

ASÍ gaf út í haustskýrslu sinni árið 2009 töflu sem dregur fram hvaða áhrif einkaframkvæmdir og stóriðja hefur á hagvöxtinn á næstu árum. Niðurstaðan þeirra er ósköp einföld. Ef við nýtum þau tækifæri sem til staðar eru til að framkvæma t.d. í samgöngumálum og öðrum slíkum verkefnum og klárum þau stóriðjuverkefni sem eru á teikniborðinu, getum við náð um það bil 4% meðaltalshagvexti á þessu árabili. En án einkaframkvæmda og án stóriðjuverkefna stefnir í 3% samdrátt á þessu tímabili. Ríkisstjórnin verður að fara að horfast í augu við það að hún hefur engar hugmyndir. Það trúir því enginn að það sé stuðningur hjá þessari ríkisstjórn við þau fjölmörgu verkefni sem eru á teikniborðinu, hafa verið tilbúin, bíða uppi í hillu eftir stuðningi frá iðnaðarráðherra, frá fjármálaráðherra, frá forsætisráðherra (Forseti hringir.) og öðrum ráðherrum í þessari afturhaldsríkisstjórn.