138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:27]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ræðumenn hafa lofað efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en ég ætla að leyfa mér að draga í efa að sú efnahagsstefna hafi örvað atvinnulífið á þann hátt sem með hefur þurft eftir fall bankanna. Samkvæmt þessari efnahagsáætlun höfum við tíma til 2013 til að ná niður halla sem nam 13,5% af landsframleiðslu árið 2008. AGS leyfði þennan halla þar sem sjóðurinn þóttist hafa lært af hagstjórnarmistökum í Suðaustur-Asíu en þessi lærdómur AGS nær bara hálfa leið. Sjóðurinn er nefnilega enn þá sannfærður um nauðsyn hávaxtastefnu í fjármálakreppu þrátt fyrir mikla gagnrýni hagfræðinga á hana og lítil tengsl hárra vaxta við gengisstöðugleika. Hallarekstur og hátt vaxtastig þýðir að í ár er ríkið að greiða 1 kr. af hverjum 5 kr. sem koma inn í skatttekjur í vexti. Þennan vaxtakostnað þarf að greiða með enn frekari niðurskurði á næstu árum.

Frú forseti. Hár vaxtakostnaður ásamt tregðu fjármálafyrirtækja til að afskrifa skuldir hefur aukið á samdráttinn í hagkerfinu sem er orðinn hættulega mikill. Sífellt fleiri heimili ná ekki endum saman og fátækt hefur aukist. Við þurfum að endurskoða áformin um niðurskurð til að dýpka ekki frekar kreppuna en til þess að við getum gert það þurfum við að hætta samstarfinu við AGS, lækka vexti niður í 2% og flýta skattlagningu séreignarsparnaðar sem mun duga til að eyða hallarekstri ríkissjóðs strax á næsta ári. Skattlagningu séreignarsparnaðar má líkja (Forseti hringir.) við vaxtalaust lán frá framtíðarskattgreiðendum og þess má geta að skattlagning á inngreiðslur í lífeyrissjóði er leyfð í Bandaríkjunum og sífellt fleiri skattgreiðendur (Forseti hringir.) kjósa þann möguleika því að allir eiga von á hærri sköttum á næstunni.