138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:35]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er ekki sérstaklega glæsileg. Menn hafa bent á að við búum ekki við kreppu hvað varðar framleiðslu heldur er hér í gangi skuldakreppa, þ.e. það eru skuldir heimilanna sem valda mestu stöðnuninni í hagkerfinu. Og ekkert mun gerast fyrr en búið er að leysa úr þeim málum. Því hraðar sem leyst er úr þeim vanda því hraðar má búast við því að landið taki að rísa eins og segir í frægu orðalagi.

Ný störf má að auki skapa, eins og Hreyfingin hefur bent á, með því landa veiddum afla á innlenda uppboðsmarkaði. Samtök fiskvinnslustöðva hafa sagt að það mundi sennilega skapa um 2–4 þúsund störf á þeim tíma sem það tekur að ráða í störfin, þ.e. á innan við þremur vikum. Þetta er aðgerð sem ég skil ekki hvers vegna stjórnvöld fara ekki út í. Þetta er hægt, sennilega með einfaldri reglugerðarbreytingu, og mundi skapa mjög mörg störf. Of stórt og of valt bankakerfi kemur í staðinn fyrir skynsamlega úrlausn á skuldavanda heimilanna sem mundi leysa úr viðjum botnfrosinn fasteignamarkað og næstum því horfinn byggingariðnað. Það eru þessar aðgerðir sem skipta meira máli en sífelld hróp á erlenda fjárfestingu í stóriðju. Þessi atriði eru meira aðkallandi.

Eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir talaði um er stórfelld vaxtalækkun Seðlabanka Íslands eitt af þeim atriðum sem líka mundi leysa atvinnulífið úr viðjum. Við búum við gjaldeyrishöft og munum búa við þau eitthvað áfram. Hér og nú er einmitt tækifæri til að lækka vexti Seðlabankans rausnarlega og það eiga að sjálfsögðu að vera skýr skilaboð ríkisstjórnarinnar til bankans að fara þá leið að auki.