138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu en um leið lýsi ég yfir miklum áhyggjum af viðbrögðum stjórnarinnar við gagnrýni sem hún fær. Þingmenn í stjórnarandstöðu virðast ekki mega koma hingað upp og lýsa staðreyndum, því hvernig Ísland er í dag. Þá um leið er sagt við okkur að við séum svartsýn og við séum með bölmóð. Þetta gengur ekki og þegar hæstv. fjármálaráðherra segir að við séum á réttri leið þá spyr ég hvort það merki að við séum á réttri leið að á fyrstu sex mánuðum ársins dróst landsframleiðslan saman um 7,3%, fjárfesting einkaaðila dróst saman um 3,2% og fjárfesting opinberra aðila dróst saman um 11,3%. Eru þetta ekki einhverjar kennitölur sem segja okkur að við séum að stefna í öfuga átt? Við erum ekki á réttri leið og við þurfum einfaldlega að horfast í augu við þá staðreynd.

Það að við skulum vera að borga 7% stýrivexti eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir benti á áðan, að 1 kr. af hverjum 5 sem fara úr ríkiskassanum fari í það að greiða af lánum og af vöxtum, að við skulum búa við hæstu stýrivexti í heimi. Við eigum að geta rætt þessar staðreyndir. Af hverju gerum við ekki eitthvað í þessu? Það er svo margt hægt að gera.

Ég minni á að Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt þessa ríkisstjórn. Alþýðusamband Íslands hefur gagnrýnt þessa ríkisstjórn og fleiri og fleiri aðilar. Ríkisstjórnin á því miður mjög fáa stuðningsmenn í þessu samfélagi. Menn hafa gefist upp við að reyna að starfa með ríkisstjórninni að miklum framfaramálum og því sýnist mér að hún sé enn við sama gamla heygarðshornið. Það lofar ekki góðu upp á samvinnu og samstarf á þessu hausti, þegar við einmitt þurfum á samvinnu að halda, hvernig ráðherrar í ríkisstjórn hafa svarað málefnalegum spurningum að undanförnu með dónaskap og hroka.