138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Sjaldan veldur einn þá tveir deila og þegar kemur til orðahnippinga eiga oftast tveir hlut að máli.

Varðandi hagtölur vil ég segja að það er vissulega óþægilegt hversu miklar sveiflur eru á mati Hagstofunnar á ársfjórðungum, ekki bara þegar hún metur stöðuna í nútímanum heldur þegar hún gerir upp mörg ár aftur í tímann og leiðréttir og leiðréttir hver hinn raunverulegi hagvöxtur eða samdráttur var á einstökum ársfjórðungum, jafnvel 2–3 ár aftur í tímann. Höfum í huga að nýjustu tölur Hagstofunnar eru bara nýjustu tölur Hagstofunnar, þær kunna að taka breytingum þegar hlutirnir verða gerðir upp. Hitt er þó ljóst, og það verð ég að viðurkenna, að annar ársfjórðungur ársins 2010 stefnir í að hafa verið slakur. Maður fékk strax á tilfinninguna að þannig væri staðan. Ýmsar vísbendingar komu fram strax í apríl/maí um að þar væri um slakan ársfjórðung að ræða en að sama skapi eru jákvæðar vísbendingar um að þriðji ársfjórðungur verði betri.

Ég tek undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að það er mikið áhyggjuefni hve mörg störf hafa tapast frá hruninu. En þau störf voru í útblásnu fjármálakerfi, þau voru í ofþöndum byggingar- og mannvirkjaiðnaði, þau voru í innflutningsverslun þar sem varningurinn flæddi inn í landið í ljósi óraunsærrar gengisskráningar o.s.frv.

Þegar íslenska raunhagkerfið er skoðað, það sem eftir stendur og heldur okkur nú á floti, er staðan mun betri og það sem við þurfum er að þar komist hjólin betur af stað og í nýsköpun fari að gerast góðir hlutir. Auðvitað væri æskilegt að hægt væri að beita sveiflujöfnunargetu ríkis og sveitarfélaga meira við þessar aðstæður. En það þýðir þá hallarekstur og aukinn vaxtakostnað síðar. Þess vegna hafa vonir staðið til að aðrir aðilar eins og lífeyrissjóðir gætu reitt fram fjármagn til framkvæmda og hið almenna atvinnulíf tæki við sér. Ríkisstjórnin hefur gripið til fjölmargra örvandi aðgerða eins og í viðhaldi og endurbótum á húsnæði, skapað þúsundir sumarstarfa með markaðsátaki í ferðaþjónustu með því að setja 3.200 milljarða í viðhald og endurbætur á opinberu húsnæði o.s.frv. Þannig er verið að reyna að gera, innan hins takmarkaða svigrúms sem fjárreiður og staða ríkissjóðs býður upp á, það sem hægt er í þessari glímu.