138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[14:07]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst um rökrétt og markviss viðbrögð okkar hér á Alþingi við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll fyrir u.þ.b. fjórum mánuðum, þ.e. að leggja til afnám iðnaðarmálagjalds frá og með næstu áramótum. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd laga um iðnaðarmálagjald stæðist ekki ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi og rétt manna til að standa utan félaga. Hins vegar, og það vil ég árétta, var ekki fjallað um gjaldtökuna sjálfa, hún var ekki sjálf lýst óheimil í dómsúrskurðinum og því er það niðurstaða meiri hluta iðnaðarnefndar að það sé enginn lögmætur grundvöllur fyrir því að fella þetta gjald niður afturvirkt, þ.e. á þessu ári eða fyrri árum. Slíkt mundi reyndar skapa réttaróvissu og efasemdir um lögmæti gjaldtökunnar í fortíðinni sem, eins og áður sagði, verða ekki rökstuddar með vísan í dóminn.