138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:10]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Lög þessi gera ekki ráð fyrir að rofin verði óeðlileg tengsl milli viðskipta og stjórnmála. Stjórnmálasamtök og stjórnmálamenn munu áfram geta tekið við peningum frá fyrirtækjum, þá verður flokkum og flokksmönnum heimilt að taka við peningum frá einstaklingum án þess að upplýst verði um viðkomandi styrkveitendur. Þessar ráðstafanir eru í andstöðu við markmið laganna sjálfra sem ætlað er, með leyfi forseta, að „draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum“.

Og „að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið“.

Að þessu leyti eru lögin því í innra ósamræmi sem seint verður vönduð lagasetning.

Sú málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið við afgreiðslu málsins er í meira lagi tortryggileg. Ekki fékk málið efnislega umfjöllun í allsherjarnefnd og beiðni um að gestir kæmu fyrir nefndina var hafnað. Svo virðist sem þingmönnum hafi legið á að afgreiða málið áður en þingmannanefnd sú sem ætlað er að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndarinnar skilaði af sér.