138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

stjórnlagaþing.

703. mál
[15:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þm. Mörður Árnason segir að í málinu stóðum við frammi fyrir því að velja milli tveggja kosta sem hvorugur var kannski sá allra besti í besta heimi allra heima. Þetta eru tveir kostir sem eru ekki endilega góðir því í lýðræðislegum kosningum er mikilvægt að kosningin sjálf sé eins aðgengileg fyrir kjósandann og kostur er. Svo geta menn farið mismunandi leiðir í því sambandi og ég hef gert grein fyrir mínum sjónarmiðum og hv. þm. Mörður Árnason hefur gert grein fyrir sínum. Við erum ekki sammála í því efni.

Ég treysti íslenskum kjósendum ágætlega til að komast að niðurstöðu hvor leiðin sem verður valin. Ég held hins vegar að sú leið að hafa nöfnin sé tvímælalaust einfaldari fyrir kjósandann þó hún kunni að vera flóknari í framkvæmd fyrir framkvæmdaraðilana. Leiðin sem lögð er til í frumvarpinu er tvímælalaust einfaldari fyrir framkvæmdaraðilana en ég held og stend við það að hún bæti við aukaflækjustigi gagnvart kjósandanum.