138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Í upphafi vikunnar var óskað eftir því í þingsal undir liðnum um fundarstjórn forseta að málið yrði sent til umsagnar í fagnefndum. Ákveðið var að reyna að verða við þeirri ósk sem kom frá hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Einari K. Guðfinnssyni. Málið var sent til umsagnar í heilbrigðisnefnd, félags- og trygginganefnd og samgöngunefnd. Umsagnir nefndanna hafa nú borist allsherjarnefnd og hefur hún fjallað um málið að nýju eftir að því var vísað til hennar milli 2. og 3. umr.

Í áliti samgöngunefndar kemur fram að almennt er breið sátt um sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í innanríkisráðuneyti. Leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt. Ég tek það fram að hv. samgöngunefnd sendi samhljóða umsögn, mjög jákvæða, um frumvarpið til allsherjarnefndar.

Í áliti meiri hluta heilbrigðisnefndar er bent á umfang fyrirhugaðs velferðarráðuneytis og um hve viðkvæma þjónustu sé að ræða. Þar kemur fram að með sameiningu ráðuneytanna megi m.a. auðvelda samþættingu þjónustu á velferðarsviði við einstaklinga og stofnanir og að sameiningin muni jafnframt mynda öflugri starfseiningar með betri yfirsýn yfir þau verkefni sem þeim eru falin og koma í veg fyrir tvíverknað.

Í áliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar kemur fram að hann telji að nýtt velferðarráðuneyti sé í betri stöðu til að forgangsraða á nýjan hátt, samþætta velferðarúrræði og eftirlit með þeim og nýta fjármuni sem við höfum til málaflokkanna á sem skilvirkastan hátt. Meiri hluti félags- og tryggingamálanefndar áréttar að undirbúa þurfi sameininguna vel. Hann telur nauðsynlegt að í undirbúningsvinnunni verði haft samráð við starfsmenn og notendur þjónustunnar sem heyrir undir málefnasvið ráðuneytanna. Þá telur meiri hlutinn málinu til framdráttar að sami maður gegni embætti félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra þar til nýtt velferðarráðuneyti tekur til starfa.

Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að markmið frumvarpsins sé að endurskipuleggja ráðuneytið í því skyni að efla þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf og nýta sem best þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Fyrsti minni hluti leggur áherslu á mikilvægi þess að allur undirbúningur sé vandaður og samráð haft við viðkomandi stofnanir og leggur því 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað orðanna „félagsmála- og tryggingamálaráðuneyti“ í a-lið 1. gr. komi: félags- og tryggingamálaráðuneyti.

Undir þetta rita hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson og Valgerður Bjarnadóttir auk þess sem hér stendur.

Í fylgiskjali með framhaldsnefndaráliti eru umsagnirnar sem bárust frá fagnefndunum svo hægur vandi er að kynna sér þær. Hvað sem öðru líður er í það minnsta búið að bæta töluverðu við málsmeðferð málsins. Því ber einfaldlega að fagna að tillaga hafi komið fram um að málið færi til umsagnar í fagnefndunum. Það styrkir undirstöður þess og þarf ekki að fara fleiri orðum um það.