138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:20]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það var leitað eftir umsögn eða áliti heilbrigðisnefndar varðandi frumvarpið. Ég get tekið undir þau ámæli sem hér hafa komið fram, að fyrirvarinn hafi verið skammur og tíminn ekki nægur. En við gátum gengið í umsagnabrunninn og skoðað þær umsagnir sem sneru beint að velferðarráðuneytinu. Það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að þær umsagnir sem lutu að fyrirhugaðri stofnun velferðarráðuneytisins voru að jafnaði jákvæðar.

Ég vil fá að gera hér grein fyrir áliti meiri hluta heilbrigðisnefndar, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur að beiðni allsherjarnefndar fjallað um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969. Í frumvarpinu er mælt fyrir um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands.

Markmiðið með frumvarpinu er að endurskipuleggja ráðuneyti í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Í frumvarpinu er gerð tillaga um sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis í velferðarráðuneyti.

Meiri hlutinn takmarkar umsögn sína við stofnun velferðarráðuneytis og skipulagsbreytingar því tengdar. Umsagnir sem borist höfðu allsherjarnefnd á sviði nefndarinnar voru almennt jákvæðar að mestu leyti og virðist breið sátt vera um sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Það er mat meiri hlutans að með sameiningu ráðuneytanna megi m.a. auðvelda samþættingu þjónustu á velferðarsviði við einstaklinga og stofnanir. Sameiningin muni jafnframt mynda öflugri starfseiningar með betri yfirsýn yfir þau verkefni sem þeim eru falin og koma í veg fyrir tvíverknað. Meiri hlutinn telur að með sameiningu ráðuneytanna muni þjónusta hins opinbera verða aðgengilegri fyrir almenning og hægt verði að gera verkaskiptingu skýrari.

Meiri hlutinn vill vekja sérstaka athygli á umfangi fyrirhugaðs velferðarráðuneytis og um hve viðkvæma þjónustu er að ræða. Leggur meiri hlutinn því ríka áherslu á vandaðan undirbúning og samráð viðkomandi stofnana. Meiri hlutinn telur að fara verði vandlega yfir hlutverk stofnananna og hafa samráð við starfsmenn þeirra með tilliti til hvort og þá með hvaða hætti þær falla undir starfsvið velferðarráðuneytis.

Þrátt fyrir fækkun ráðuneyta vill nefndin benda á að ýmis verkefni hins opinbera snerta eftir sem áður verksvið margra ráðuneyta. Því er mikilvægt að leita leiða til að koma á markvissu samstarfi og leysa þau mál sem snerta fleiri en eitt ráðuneyti. Meiri hlutinn mælir því með samþykkt frumvarpsins.“

Undir þetta rita auk mín Sigmundur Ernir Rúnarsson, Siv Friðleifsdóttir, með fyrirvara, Ólafur Þór Gunnarsson, Valgerður Bjarnadóttir og Skúli Helgason.

Þetta er álit sem nefndin byggði á þeim umsögnum sem að þessu sviði sneru.

Eins og segir í nefndarálitinu er samráð mikilvægt. Mikið hefur verið kvartað undan því að ekki hafi verið leitað eftir samráði við undirbúning og framlagningu þessa frumvarps. Segja má að samráðið hafi verið innan Stjórnarráðsins. Það hefur verið leitað eftir samráði, það hefur verið unnið þvert á ráðuneyti. Ég nefndi hér áðan að sá hópur sem vann að undirbúningi frumvarpsins hefði komið með tillögur bæði á grunni stefnu þessara tveggja samstarfsflokka, sem endurspeglast í stjórnarsáttmálanum, og eins almennri kröfu úti í samfélaginu sem fram hefur komið víðar bæði um verksvið og styrkingu ráðuneytanna.

Samráðið hefur líka verið í allsherjarnefnd því að þar hafa einnig verið gerðar breytingar. Breytingin er meðal annars sú að verði frumvarpið að lögum hefjist þetta samráðsferli milli stofnananna og með aðild fulltrúa stjórnmálaflokkanna. Þegar frumvarpið hefur orðið að lögum hefst hinn raunverulegi undirbúningur að stofnun velferðarráðuneytis, sem ég vil bara taka sérstaklega fram, og samráðsferlið við stjórnmálaflokkana, við stofnanir, við starfsmenn hefst þá.

Sú greining sem hér kom fram, í svari sem liggur frammi á þingskjali, sem listi yfir stofnanir, er í svari forsætisráðuneytis við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur frá 27. ágúst. Þá voru taldar upp þær stofnanir sem hugmyndir eru um að falli undir innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti. Það eru eingöngu hugmyndir á þessu stigi því að eftir er frekari greiningarvinna og samráð um svið — þetta eru ekki bara heilu stofnanirnar heldur verksvið hverrar stofnunar, hvernig eigi að fara með og hvort þær verði sameinaðar, hvort skipt verði upp verksviði viðkomandi stofnana og þeim jafnvel dreift á milli stofnana. Þessi greiningarvinna hefst í raun og veru, eins og ég hef skilið þetta, núna.

Þar vil ég bara fá að nefna að ég legg til og tel mikilvægt að það séu hér nokkrar stofnanir sem voru flokkaðar undir velferðarráðuneytinu, sem eru Íbúðalánasjóður, ríkissáttasemjari, Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun, að sérstaklega verði litið til þessara stofnana hvað varðar þá skilgreiningu að þær falli undir velferðarráðuneytið. Það er stórt, eins og það er listað upp hér, þetta er viðkvæm starfsemi og ég tel að skoða eigi þetta alveg sérstaklega þegar farið er í þessa vinnu.

Ég gæti eins og fleiri lýst skoðunum mínum og farið yfir umsagnir sem eru jákvæðar en hvetja einmitt til samráðs og geta mikilvægis þess að leita til bæði stofnana og starfsmanna. Þegar verið er að segja hér hvað eftir annað og því haldið fram í ræðustóli að öll loforð um samráð séu svikin vil ég bara meina að ekki sé hægt að svíkja í dag eitthvað sem á eftir að verða í framtíðinni. Það samráð er formgert hér við afgreiðslu málsins, að skipa eigi fulltrúa stjórnmálaflokkanna inn í þennan samráðsferil. Hann er ekki hafinn með formlegum hætti og ég get ekki séð að verið sé að svíkja loforð.