138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara svo að það sé alveg skýrt hvaða loforð verið er að svíkja þá er það skriflegt, það er á bls. 5 í frumvarpinu, það er 2. mgr.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Hvað tímasetningar varðar er gert ráð fyrir að sumarið verði nýtt til samráðs þannig að ljúka megi afgreiðslu frumvarpsins í haust.“

Þetta getur ekki verið skýrara. Það átti að vera samráð í sumar til að hægt yrði að ljúka frumvarpinu í haust. Þetta eru ekki orð stjórnarandstöðunnar, þetta er í frumvarpstextanum og þetta getur ekkert verið skýrara. Þetta hefur verið svikið.

Ég spurði hv. þingmann í ræðu minni, og ætla að gera það aftur, um orð hv. þingmanns þar sem hún sagði að það væru áætlanir og gögn í forsætisráðuneytinu í tengslum við sameiningu stofnana og hagræðingu í tengslum við þetta frumvarp og sömuleiðis varðandi sameiningu ráðuneyta. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hv. þingmaður séð þau gögn og skoðað þau? Eða er hv. þingmaður meðvitaður um að einhver þingmaður hafi fengið að fara yfir þessi gögn? Það væri kannski ágætt ef hv. þingmaður gæti bara upplýst hvað er þarna á ferðinni því að þetta er algjörlega nýtt í umræðunni.