138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:37]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er enginn hafinn yfir gagnrýni. Núverandi ríkisstjórn eins og aðrar ríkisstjórnir og meiri hluti á þingi eins og aðrir meiri hlutar eiga að vanda vinnubrögðin. Við eigum von á áliti eða skýrslu þingmannanefndarinnar sem fékk það erfiða hlutverk að taka við skýrslu rannsóknarnefndar og gefa góð ráð um það hvernig við eigum að bæta vinnubrögð og bera ábyrgð á gjörðum okkar.

Ég tel að þegar við fáum skýrsluna í hendur muni hún verða okkur góður vegvísir inn í þá vinnu sem við erum að fara að leggja í og ég hvet alla til að taka þátt.

Ég vil fá að beina einni spurningu til hv. þingmanns: Hvernig honum litist á eða hvort hann teldi æskilegt að taka upp þá stjórnsýslu að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands á þann veg að ríkisstjórn hvers tíma hefði það í höndum sér hvernig menn skiptu með sér verkum í Stjórnarráðinu, að það væri í höndum ríkisstjórnar hvers tíma hvernig Stjórnarráðið væri skipað, þ.e. fjölda ráðuneyta, verkaskiptingu o.s.frv.? Þetta er framkvæmdarvaldið og það væri í höndum framkvæmdarvaldsins að ákveða með hvaða hætti verklag þess væri. Ég vil aðeins fá viðbrögð hv. þingmanns við þessari hugmyndafræði.