138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi beina spurningu hv. þingmanns vildi ég segja: Löggjafarvaldið, Alþingi, á ekki að skipta sér af daglegum störfum framkvæmdarvaldsins en löggjafarvaldið hlýtur að setja framkvæmdarvaldinu ramma með lögum, þar á meðal um skipulag þess. Það er mín skoðun.

Varðandi þau atriði sem nefnd hafa verið. Samráð og annað þess háttar og allir tala um að við eigum að læra af skýrslu rannsóknarnefndar sem er komin fram og skýrslu þingmannanefndar sem á eftir að koma fram. Allt er það gott og blessað, við getum verið sammála um það. Hins vegar eru þeir mælikvarðar sem við sjálfstæðismenn höfum bent á í þessari umræðu, m.a. um samráð, ekki nýir af nálinni. Það þarf ekki a bíða eftir niðurstöðu þingmannanefndarinnar til að vita að æskilegt er að hafa samráð. Ekkert nýtt, forvitnilegt eða óvænt mun koma frá þingmannanefndinni varðandi samráð, hygg ég, vegna þess að það hefur lengi legið skýrt fyrir og formlega frá 2007 í handbókinni frægu og í yfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar, m.a. frá liðnu sumri, að samráð skuli hafa við undirbúning lagafrumvarpa, ekki bara eftir að mál koma inn í þing heldur líka við undirbúning lagafrumvarpa. Það er jafnskýrt að við undirbúning þessa frumvarps var ekkert slíkt samráð fyrir hendi þó að, eins og ég hef áður bent á, einhverjir ráðherrar hafi talað saman sín á milli og jafnvel ráðuneytisstjórar eða aðstoðarmenn ráðherra. Það er ekki samráðið sem verið er kalla eftir. Það er verið að tala um samráð aðila sem hafa hagsmuna að gæta á viðkomandi sviðum, (Forseti hringir.) m.a. víðtækt samráð við fólkið í landinu.