138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Í stuttu svari við andsvari áðan náði ég ekki að inna hv. þm. Þuríði Backman nánar eftir því sem hún sagði og dró svo eiginlega til baka varðandi einhver gögn, matsskýrslur og greiningar og þess háttar sem fyrir lægju og væru til grundvallar þessu máli. Ef ég skildi ummæli hennar í fyrri ræðu rétt þá taldi hún sig hafa upplýsingar um að slík gögn væru fyrir hendi og lægju til grundvallar þessu frumvarpi. Einhver gögn, faglegt mat, matsskýrslur, greiningar og þess háttar sem lægju málinu til grundvallar. Ég skildi fyrri ræðu hennar þannig. Svo þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór að ganga á hana þá fannst mér hún draga verulega í land og kvaðst ekki hafa upplýsingar um slíkt en taldi alveg víst að svo hlyti að vera, sem er svolítið annað.

Í því sambandi get ég ekki komist hjá því að rifja upp það sem ég hef áður sagt í þessari umræðu, að ekkert í greinargerð með frumvarpinu bendir til að slík fagleg vinna hafi legið frumvarpinu til grundvallar. Greinargerð með frumvarpinu byggir á því að sögð er í nokkuð löngu máli skoðun frumvarpsflytjanda eða höfunda á því hvernig þeir sjá þessi mál fyrir sér en ekki er vísað í nein gögn, ekki er vísað í neinar skýrslur, ekki er vísað í neinar greiningar. Það er ekkert sem hönd á festir sem styður skoðanir þeirra og niðurstöður. Ekki neitt.

Við umfjöllun í allsherjarnefnd var líka kallað eftir þessu og þar kom ekki fram neitt sem benti til að slík gögn væru fyrir hendi. Engar skýrslur, engin gögn, engin rannsóknarvinna sem hönd var á festandi, ekkert sem hægt var að byggja á annað en skoðun ríkisstjórnarflokkanna sem birtist í stjórnarsáttmálanum. Þetta er kjarni málsins. Það er sem sagt nægilegt fyrir ríkisstjórnarflokkana, fyrir ráðherra í ríkisstjórn og fyrir þá þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem ætla að greiða þessu frumvarpi atkvæði sitt að trúa því að þessar breytingar muni skila árangri. Þeir gera enga kröfu um að fá neitt í hendur sem styður þá skoðun, ekki neitt. Það er engin þörf á því að fá nein gögn sem undirbyggja þessa afstöðu.

Bent hefur verið á að stöðlum, mælikvörðum og viðmiðunum sem fyrir hendi eru og hafa verið um nokkurt skeið, um hvernig eigi að standa að undirbúningi, gerð og framsetningu lagafrumvarpa, hefur ekki verið fylgt í þessu efni, alls ekki. Ekkert bendir til þess. Ef borin eru saman ákvæði, einstök efnisatriði og mælikvarðar handbókarinnar frá 2007 og endurskoðaðra reglna ríkisstjórnarinnar sjálfrar við þetta frumvarp kemur í ljós að frumvarpið stenst engan veginn þá mælikvarða sem núverandi ríkisstjórn segist setja sér. Í þessu máli eins og raunar svo mörgum öðrum snýst ríkisstjórnin fyrst og fremst um spunann, ekki um innihaldið, um fögru yfirlýsingarnar, ekki um efndirnar, um að láta hlutina líta vel út, ekki um að gera vel. Það er vandinn. Það er stóri vandinn við ríkisstjórnina. Þó að þetta mál, skipanin, skipulagið, fyrirkomulagið og Stjórnarráð Íslands breyti auðvitað minnstu fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu þá endurspeglar það samt svo afskaplega vel hvernig núverandi ríkisstjórn er þegar til kastanna kemur, ekkert nema leiktjöldin. Fögrum leiktjöldum er slegið upp en á bak við þau er ekki neitt, fögur orð, engar efndir. Þegar kallað hefur verið eftir rökstuðningi í umræðunni, bæði fyrr í vikunni og eins í dag, eru svörin engin. Fyrir ríkisstjórnina og fyrir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna er nóg að hafa náð að framlengja samkomulag sitt um að halda völdum. Dagleg vinnubrögð, vönduð stjórnsýsla og þess háttar skiptir engu máli ef þeir ná að koma sér saman um að sitja áfram á valdastólunum eins og gerðist í þessu máli.

Rifjum upp það sem setti þetta mál í uppnám. Það sem setti málið í uppnám voru ekki fagleg sjónarmið. Það voru valdapólitískar deilur innan ríkisstjórnarflokkanna, árekstrar milli þeirra og innan þeirra. Það var það sem setti það í uppnám. Lausnin fólst í hrókeringum í ríkisstjórnarliðinu, pólitískum hrókeringum, og reyndar því að fresta umdeildum breytingum, fresta, ekki leysa vandamál heldur fresta því. Hrókeringarnar og valdapólitíkin er það sem skiptir máli þegar í raun og veru er tekið á ríkisstjórninni, þegar rétt mynd hennar og rétt andlit hennar birtist. Öll fögru orðin um vönduð vinnubrögð, nútímalega stjórnsýslu, nýja tíma, víðtækt samráð, lýðræði og ég veit ekki hvað og hvað — þessi ríkisstjórn hefur sérhæft sig í fallegum frösum — en þegar á þeim er tekið og ysta laginu flett ofan af kemur ekkert í ljós nema svikin loforð, svikin fyrirheit og fullkominn skortur á öllum efndum.