138. löggjafarþing — 156. fundur,  9. sept. 2010.

stjórnlagaþing.

703. mál
[17:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu nr. 90/2010, um stjórnlagaþing. Það er hálfdapurlegt að það skuli vera komin fram tillaga um breytingar á þeim lögum því að við erum nýlega búin að ganga í gegnum það að setja lög um stjórnlagaþing og um það myndaðist breið sátt. Hins vegar kom í ljós við vinnslu laganna ákveðinn galli og yfirkjörstjórn treysti sér ekki til að fara eftir þessu. Hér er því komin fram nokkurs konar málamiðlunartillaga um það að einfalda að mati meiri hluta allsherjarnefndar kosningafyrirkomulagið sem snýr þá aðallega að kjörseðlinum, því að ég ætla aðallega að tala um þær breytingar sem snúa að kjörseðlinum.

Þetta er fyrsta persónukjörið sem fer fram á Íslandi en það hefur verið kallað mjög eftir því eins og flestir vita sem fylgst hafa með þeim lýðræðisumbótum sem átti að fara í eftir bankahrunið. Það er því hálfdapurlegt að fyrsta persónukjörið verði með þeim hætti að frambjóðendur eigi að vera merktir með númerum. Ég hef verið að gantast með að það megi eiginlega segja að frambjóðendur séu strikamerktir. Ég vil meina að þetta flæki mjög vinnu á kjörstað að gera þetta svona, því að auðvitað á fólk að kjósa nöfn. Á bak við nöfn eru einstaklingar og í persónukjöri er verið að kjósa einstaklinga en ekki númer.

Það er komin niðurstaða í þetta mál. Ég ætlaði að leggja fram breytingartillögu við frumvarpið og ætla ég að fara yfir það á eftir, en eftir að hafa ráðfært mig við sérfræðinga hafa þeir komist að því að þetta sé það sem sé best til þess fallið að bjarga stjórnlagaþinginu og kosningu til þess. Ég var með hugmyndir um það í allsherjarnefnd í gær að taka út númeratölurnar á kjörseðlinum og hafa krossa því að skiptir raunverulega ekki máli hvernig fólk raðast á stjórnlagaþing. Hin svokallaða STV-aðferð sem er hlutfallskosning skiptir í raun og veru ekki máli fyrir stjórnlagaþingið vegna þess að þar er ekki sama röðin eins og t.d. í alþingiskosningum eða sveitarstjórnarkosningum þar sem er takmarkaður sætafjöldi hjá hverjum flokki. Þá skiptir röðun inn á lista, eins og t.d. í alþingiskosningum, mjög miklu máli, hver skipar fyrsta sætið, hver skipar annað sætið o.s.frv., upp á það hverjir verða aðalmenn og hverjir varamenn. Sú leið þótti of flókin að fólk hefði möguleika á að merkja við nöfn allt að 25 krossa í stað þess að hafa númerin. Ég er ekki á því, ég tel krossaleiðina betri en að hafa þetta númerað.

Hitt sem hefði náttúrlega verið langframsýnast, og ég var líka að hugsa um að leggja fram breytingartillögu um í dag, er að hafa þessa kosningu hreinlega rafræna. Ég sé það fyrir mér að á kjördag þegar fólk þarf að merkja við allt að 25 sinnum þriggja stafa tölu eftir frambjóðendum sem hafa hlaupandi tölu ekki í réttri röð — þetta er mjög flókið þó að einhverjar seðlar og upplýsingar séu uppi á vegg hjá fólki eða fólk búið að skrifa niður númerin heima hjá sér — þá tekur þetta alveg ægilega langan tíma. Með því að hafa þetta fyrstu alvöru rafrænu kosninguna á Íslandi og tölvuvæða kjördeildir væri hægt að slá inn annaðhvort nafn eða númer og þá mundi líka birtast á skjánum mynd af þeim sem fólk ætlar að kjósa, þá er ekki hægt að misskilja eða skrifa vitlaust númer, því að þá þrítékkar kjósandinn sjálfur að hann sé að kjósa réttu manneskjuna. Mér var þá sagt að þetta þyrfti langtum lengri tíma til undirbúnings til að kosning til stjórnlagaþings gæti farið fram, en eins og segir í frumvarpinu sem varð að lögum í vor á að kjósa til stjórnlagaþings 27. nóvember. Ég hef komið þessum athugasemdum hér á framfæri.

Ég kem ekki til með að styðja þetta frumvarp því að mér finnst ábyrgðin hjá þeim sem leggja frumvarpið fram svo mikil, það er verið að auka flækjustigið fyrir kjósandann eins og ég kom inn á í byrjun, að slíta þessa kosningu úr samhengi við einstaklingana sem eru í þessu persónukjöri. Óttast ég mjög að þetta geti jafnvel dregið úr kosningaþátttöku því að við skulum muna það að ekki eru allir ungir og sprækir og þeir sem eru á kjörskrá eru náttúrlega stór hluti þjóðarinnar á öllum aldri, fatlaðir og ófatlaðir, blindir og sjáandi. Það getur því verið að í kjördeildunum skapist mikill vandi með þessu.

Ástæða þess að þetta frumvarp er lagt fram með þessari tillögu að breytingu á kjörseðli er fyrst og fremst sú að það er mikill ótti við að það verði svo margir í framboði að kjörseðillinn verði svo stór að íslenskir kjósendur ráði ekki við hann. Við höfum séð í fréttum og annars staðar myndir frá kosningaeftirliti þar sem kjörseðlar eru á mörgum blöðum. En þá komum við að hinu praktíska atriði að lesa úr talningunni. Það er talið að þegar kjörseðill er kominn yfir A3 stærð sé ekki hægt að skanna hann inn og hafa þar með rafrænan lestur og talningu af þeim kjörseðli. Ég kaupi alveg þau rök en ég sé ekki rökin fyrir því að það megi ekki hafa kjörseðilinn á tveimur blöðum sem eru A-3 að stærð þannig að þá verði hverjum kjörseðli rúllað tvisvar í gegnum talningu.

Framtíðin mun svo leiða í ljós hvernig kosningin heppnast þann 27. nóvember nk. Hér er verið að bæta úr þessu að mati meiri hluta allsherjarnefndar, en eins og ég kom inn á áðan er að mínu mati verið að flækja kosninguna fyrir kjósandanum. Þetta er alfarið á ábyrgð framkvæmdarvaldsins því að dómsmálaráðuneytið fer með framkvæmd þessara laga ásamt landskjörstjórn. Ég óska þess að sjálfsögðu að þessar kosningar komi til með að ganga vel, það verði ekki mikil biðröð fyrir utan kjördeildir. Það verður kannski að grípa til þess ráðs að fjölga kjördeildum, ég skal ekki segja. En úr því að formaður allsherjarnefndar veifar hér hinum margrómaða kjörseðli, sem er sýnishorn, var t.d. gerð athugasemd við það að ef kjörseðlarnir eru stórir þyrfti jafnvel að stækka kjörkassa. Hvað er því? Sú ákvörðun var tekin að kjósa til stjórnlagaþings og setja á stofn stjórnlagaþing og þá verður umhverfið líka að bregðast við því að sú framkvæmd sé í lagi. Ég sé það ekki sem neina hindrun að kjörkassarnir verði stækkaðir en það er eitthvað sem hefur t.d. verið notað sem rök í þessu máli og líka það t.d. hvernig kjósandi á að fara að því að brjóta saman seðilinn. Mér finnst það mjög léttvægt. En svona er þetta, málið liggur hér fyrir og verður líklega að lögum á eftir.

Ég óttast svolítið að nokkuð mikið verði um ógilda seðla og vafaatkvæði þegar kjósandi þarf að merkja með penna eða blýanti 25 sinnum þrjár tölur og það getur líka jafnvel orðið til þess að kjósandinn kjósi rangan mann, einhvern sem hann ætlaði alls ekki að kjósa, ef hann setur talnaröðina ranga eða ruglast. En það er náttúrlega hlutur sem aldrei kemst upp af því að þegar kjósandi hefur skilað atkvæðaseðli sínum í kassann ber hann ábyrgð á því hvort hann hafi kosið réttan mann.

Svona eru vandkvæðin sem ég sé á þessu. Í stað þess að kjósandinn hafi það val í fyrsta persónukjöri sem Íslendingar taka þátt í að kjósa nöfn sem persónur eru á bak við eru þetta tilbúnar tölur, valdar af handahófi, í hundraðsstærð, þ.e. frambjóðandi númer 326 eða 105 eða annað. Ég hef komið þessum áhyggjum á framfæri. Ég óska stjórnlagaþingi velfarnaðar og þeim einstaklingum og starfsmönnum þjóðarinnar sem koma til með að standa vaktina þann dag sem kosið verður til stjórnlagaþings, 27. nóvember, og þeim talningarmönnum sem koma til með að þurfa að kljást við þessa atkvæðaseðla þegar upp verður staðið.