138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[10:32]
Horfa

Frsm. þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem er viðamikið plagg eins og þið sjáið og henni fylgja ítarleg fylgiskjöl sem rakin eru í skýrslunni. Eins og kemur fram á efnisyfirliti á bls. 1 í skýrslunni er hún mjög ítarleg, 191 blaðsíða, og þar er gerð grein fyrir efnistökum okkar sem ég vík að síðar í máli mínu.

Eins og kunnugt er urðu íslenskt þjóðarbú og íslenskur efnahagur fyrir gríðarlegu áfalli 6. október 2008 þegar stærstu bankarnir féllu, þrír einkabankar, og ríkið yfirtók rekstur þeirra. Í kjölfar þess samþykkti Alþingi að koma á fót sérstakri rannsóknarnefnd sem skipuðu Páll Hreinsson hæstaréttardómari, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Sigríður Benediktsdóttir hagfræðingur. Í inngangi að skýrslu okkar er gerð grein fyrir verkefnum þessarar skýrslu. Enn fremur var kosinn sérstakur vinnuhópur um siðferði. Í honum sátu Vilhjálmur Árnason prófessor, Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisráðs, og skilaði hópurinn skýrslu sinni með viðauka þann 12. apríl sl. Töf varð á vinnu nefndarinnar um tvo mánuði, reyndar eitthvað lengur en það þýddi að ráðrúm þingmannanefndarinnar varð tveimur mánuðum styttra og vinnan frá því að við hófum störf hefur verið mikið kapphlaup við tímann. Okkur hefur tekist þetta. Það var eiginlega ekki ljóst fyrr en á föstudagskvöldið eða seinni part föstudags að það næðist og kann ég meðnefndarmönnum mínum einskærar þakkir fyrir einbeitta og málefnalega vinnu sem ég vík að síðar. Ég mun eflaust þakka þeim mun oftar í ræðu minni.

Ég verð að segja að þeir sérfræðingar sem unnu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru allt yfirburðamenn á sínu sviði. Það eru færustu sérfræðingar sem við höfum á að skipa. Þess vegna hef ég tekið mikið mark á niðurstöðum skýrslunnar og allri umfjöllun í heild sinni vegna þess að ég geng að því sem vísu að jafnvalinkunnugt fólk og þarna skipaðist til verka skili af sér faglegum, vönduðum vinnubrögðum eins og það temur sér í öllu sínu starfi hvar sem það er á vettvangi þjóðlífsins.

Í kjölfar þessarar skýrslu 12. apríl var á grundvelli laga skipuð sérstök þingmannanefnd, skipuð þingmönnum úr öllum þingflokkum. Hana skipa auk mín Unnur Brá Konráðsdóttir, sem var varaformaður, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. Síðustu tvær vikurnar starfaði Margrét Tryggvadóttir með nefndinni í forföllum Birgittu Jónsdóttur. Þessir nefndu þingmenn eru meðflutningsmenn á skýrslunni en það er vel að merkja ákaflega lofsvert og merkilegt í þingsögunni að það skuli hafa myndast einhugur um mál eins og þetta.

Það var ekki alltaf auðvelt en við tókum til okkar gagnrýni sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um stjórnmálamenningu á Íslandi, umræðuhefð. Við unnum það málefnalega. Auðvitað vorum við ekki alltaf sammála en málefnaleg var vinnan, við komumst að niðurstöðu með heiðarlegri, beinskeyttri, málefnalegri umræðu. Og hvert einasta orð í þessum texta, sérstaklega í niðurstöðuköflunum, var rætt og meitlað og hugsun mikil bak við það.

Verkefnum þingmannanefndarinnar er lýst í blöðunum og er gerð grein fyrir því á bls. 2. Við höfðum tvenns konar hlutverk: Annars vegar að skila Alþingi þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir, að mæla fyrir um hugsanlegar úrbætur á lögum á grundvelli þess og enn fremur áttum við að taka afstöðu til ráðherraábyrgðar sem við ræðum sérstaklega og ég var að vona að smitaði ekki gagnmerka vinnu í umræðum þingmanna í dag. Ég vona að við höldum okkur við og einbeitum okkur að umræðum um skýrsluna og geymum okkar ráðherraábyrgðina þar til við fjöllum um þingsályktunina. Það var samdóma álit okkar nefndarmanna að slík umræða mætti ekki trufla þá framtíðarsýn sem liggur í því plaggi sem við ætlum að einbeita okkur að í dag. Ég legg sérstaka áherslu á það og ég hygg ég færi hér fram skilaboð frá þingmannanefndinni allri um það.

Ég hef sagt að aðalatriðið í vinnu þingmannanefndarinnar var þessi skýrsla, þessi efnistök. Hitt málið var — ég get svo sem sagt aukaafurð, ég hef verið gagnrýndur fyrir það, en við fengum þann kaleik, og það hefur reynst okkur öllum erfitt, að vinna það verk sem snýr að ráðherraábyrgðinni og Alþingi. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir neitt okkar og síst þá sem standa frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu til flokkssystkina sinna eða flokksfélaga sem þau hafa starfað með árum eða áratugum saman. Ég geri mér fulla grein fyrir þeim erfiðleikum og ég vænti þess að þingmenn geri sér fulla grein fyrir því. Hver sem niðurstaðan verður svo er hún unnin í þessum sama anda þó að skilið hafi leiðir um niðurstöður. Við gerðum þetta af hreinni og fullri samviskusemi og einurð.

Í skýrslunni er sagt frá vinnu þingmannanefndarinnar. Við höfum fundað 54 sinnum frá því um miðjan janúar sl. og við höfum fundað frá 17. ágúst sl. alla daga, öll kvöld. Það eru ekki bara fundirnir sem hafa átt sér stað heldur hefur verið ótrúleg heimavinna á öllum nefndarmönnum því að það er ekki nóg að funda, það þarf að undirbúa fundi, það þarf að lesa, það þarf að skipuleggja næsta dag og mér fannst alveg undravert og sýna óskaplegan styrk þingsins, mér fannst það sýna glöggt hvað við getum hérna inni, hvernig okkur tókst á þessum tæpum þrem vikum að klára skýrsluna í því horfi sem hún er. Ég hefði kosið að hafa einhverja daga í viðbót, ég neita því ekki. Það verða eflaust einhverjar villur sem koma upp. Strax klukkan 3 eftir að síðasta hönd hafði verið lögð á skýrsluna rak ég augun í villu sem ég mun gera grein fyrir. En menn verða að virða það til betri vegar þótt einhvers staðar gæti ónákvæmni eða einhvers staðar séu skekkjur. Það verður bara að vera þannig.

Ég hef sagt um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að hún hefði e.t.v. getað orðið 500 bls. styttri ef tóm hefði gefist til að samhæfa niðurstöður í bindum vegna þess að niðurstöður rannsóknarnefndarinnar bergmála eða endurspeglast nánast í öllum bindum skýrslunnar. Ég kem betur að því síðar.

Við höfum farið yfir alla texta og meitlað þá og við nutum aðstoðar ótrúlega margra sérfræðinga. Ég ætla ekki að telja þau upp, þau eru nefnd á bls. 3, en ég vil þó þakka þeim sérstaklega sem mest unnu fyrir okkur, þ.e. Jónatani Þórmundssyni, Ragnhildi Helgadóttur og Sigríði Friðjónsdóttur. Fleiri komu að en ég nefni þau ekki, en öllum sem nefnd eru þarna þakka ég sérstaklega. Við veltum við hverjum einasta steini, við svöruðum öllum álitum, við fórum tvisvar, þrisvar yfir erfiðustu álitamálin. Ég get ekki hætt þakkarræðu minni og verð að lýsa aftur yfir því að Alþingi hefur styrk og getu til að vinna í anda þess sem við tileinkuðum okkur og kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar, sérstaklega vinnuhóps um siðferði. Sú umgjörð sem við höfum á þingi er eiginlega ótrúleg og það sýnir að okkur tókst að vinna þessa skýrslu hversu duggott starfslið þingsins er, ritarar á nefndasviði og allt starfslið, og okkur hefur verið veitt skínandi umgerð um alla þessa vinnu. Við sitjum oft undir mikilli gagnrýni, Alþingi sætir oft ósanngjarnri gagnrýni að mínu mati. Svipurinn sem fólkið í landinu fær af þinginu er ekki allsendis réttur. Hér koma sjónvarpsmenn upp í byrjun funda þar sem er svolítill — ég segi ekki sandkassaleikur en mjög áríðandi umræða en þar birtist oft sýn almennings á þingið. Það er minni eftirfylgni og athygli sem beinist að umfjöllun um einstök lagafrumvörp og ég tala ekki um umfjöllun þingmanna í nefndum sem er yfir höfuð til fyrirmyndar. En við þurfum að endurvekja traust Alþingis og ég kem betur að því síðar.

Einnig er gerð grein fyrir bréfum sem við höfum sent og bréfum sem við höfum móttekið. Það féll niður, og féll reyndar niður í athugasemdatexta, bréf sem nefndin sendi forseta Íslands, svarbréf frá honum og viðbrögð siðanefndar eða vinnuhóps um siðferði við gagnrýni forseta Íslands og ég kem að því síðar.

Þetta er inngangskafli. Síðan fjöllum við um meginniðurstöður nefndarinnar flokkaðar eftir málefnasviðum, tillögur um rannsóknir og síðan fylgir þingsályktun og í IV. kaflanum er útdráttur. Við byrjuðum á að vinna þennan útdrátt við hvert einasta bindi og tókum þar saman niðurstöður. Við greinum frá niðurstöðum og ályktunum rannsóknarnefndar Alþingis, tókum afstöðu til þeirra undir hverjum kafla. Þegar það var búið tókum við efnisniðurstöður okkar saman í einn kafla saman og síðan röðuðum við þeim undir málaflokka sem birtust í skýrslunni. Það var mikil vinna en hún var afar þarft verk því að á einum stað er hægt að finna allar meginniðurstöður unnar upp úr köflunum. Ég nefni það til að mynda varðandi kaflann um fjármálafyrirtæki að þegar búið var að taka saman niðurstöðupunkta úr öllum bindum sátum við uppi með hartnær 40 niðurstöðupunkta. Margir þeirra voru eins en þegar við vorum búnir að þjappa þeim saman og taka þá saman undir eitt enduðu þeir í 14–15. Það var gríðarleg vinna. Fyrst urðum við að verða sammála um niðurstöður við hvern útdrátt eða hvert bindi og síðan þurftum við, þegar við voru búin að þjappa þessu saman, að ná niðurstöðum um meginniðurstöðuna og það gekk ótrúlega vel.

Ég hafði það að leiðarljósi í allri þessari vinnu við þessa skýrslu og í allri vinnu minni sem formaður að ná samstöðu og einhug, að ná vinnulagi sem siðanefndin bendir okkur á að vinna eftir og það tókst í meginatriðum um þessa skýrslu. Einstök atriði hafa þingmenn sett í neðanmálsgreinar en það var samstaða nánast í gegnum alla skýrsluna. Það var mitt verkefni. Ég gat auðvitað farið aðra leið sem var auðveldari, að sprengja þetta allt upp í deilum. Það var líka hægt á köflum. Ég tók þá leið halda málamiðlun og það tókst, ég vík betur að því síðar. Þannig gerðum við þetta og skiptum svo upp í málefnasvið, í fyrsta lagi Alþingi, síðan fjármálafyrirtæki, eftirlitsaðila, stjórnsýslu og svo kafla um siðferði og samfélag. Það er nauðsynlegt og þarft verk og afar brýnt fyrir skoðun í framtíðinni á þessu. Þessi samantekt er mjög brýn.

Nú ætla ég að fara yfir þessar meginniðurstöður en ítreka að þær eru dregnar saman úr niðurstöðum þingmannanefndarinnar úr hverjum kafla og skýrslunni, þannig að skýrsla rannsóknarnefndarinnar og niðurstöðurnar í útdráttunum standa. Það er meginstefið í öllum niðurstöðum okkar í útdráttunum að við erum sammála þeim og leggjum til að þær verði í meginatriðum, eins og við orðum það, lagðar til grundvallar við úrbætur í löggjöf, þannig að stóra niðurstaðan er þessi: Við föllumst á niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndarinnar í meginatriðum og þær eru í meginatriðum lagðar til grundvallar.

Þarna erum við að leggja upp forsendur fyrir löggjafarvinnu en þar sem við erum með mismunandi stjórnmálaskoðanir þá greinir okkur auðvitað á um hvaða leiðir eigi að fara en forsendurnar eru þarna. Það er svo pólitískt úrlausnarefni hvers flokks að velja leiðir sem fullnægja þeim forsendum sem við setjum fram og komast að niðurstöðu. Þannig er vinnan. Við áttum ekki sem nefnd tök á því að semja löggjöf um fjármálafyrirtæki, þingskapalög eða annað slíkt. Það bara gekk ekki eftir. Þetta vildi ég taka fram.

Tímans vegna verð ég auðvitað að stikla á stóru. Við í nefndinni höfum skipulagt okkur nokkuð, þannig að hver nefndarmaður mun gera sérstaklega grein fyrir einhverju ákveðnu málefnasviði en hafa auðvitað frelsi til að tjá sig um allt. Ég hef ekki verið svo skipulagður eða einrænn að ég hafi stýrt því hvað hver segði eða neitt slíkt, því fer fjarri, en þetta var skipulagt svona.

Ég ætla að byrja á Alþingi og staldra aðeins við þann þátt. Þar kemur fram að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis og mikilvægt að bregðast við henni. Meginniðurstaða okkar er sú að það verði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar. Þetta er auðvitað gamalkunnugt stef en nú má það ekki hljóma sem stef lengur, nú verður þetta að fara að komast í framkvæmd. Það má segja að þetta sé sjálfstæðisyfirlýsing Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er kominn tími til að iðka þrískiptingu ríkisvaldsins, eins og hugmyndafræðingar þeirrar þrískiptingar lögðu upp með á sínum tíma.

Við viljum að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar og við segjum það. Það eru kannski stór orð, það verður hver að meta það, ég var reyndar svolítið feiminn við stóru orðin, eins og ég er oftast. En við segjum að við viljum ekki að Alþingi sé verkfæri í höndum framkvæmdarvaldsins. Og á það legg ég þunga áherslu í þeim kafla, sem ég kem að núna, og ég óska eftir því, og það eru eindregin tilmæli mín til þingmanna, að í umræðunni um þessa skýrslu í dag og í væntanlegri umræðu um þingsályktunartillögur á morgun stundum við þá umræðu sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar og þá sérstaklega skýrsla vinnuhóps um siðferði leggur mikla áherslu á. Við segjum:

„Þingmannanefndin telur fulla ástæðu til að taka alvarlega gagnrýni í umfjöllun vinnuhóps um siðferði um íslenska stjórnmálamenningu og leggur áherslu á að draga verði lærdóm af henni. Alþingi á að vera vettvangur umræðu sem tekur mið af almannahagsmunum. Góð stjórnmálaumræða næst fram með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar. Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast nægilega í samræmi við það. Stjórnmálaumræður á Alþingi hafa einkennst um of af kappræðum og átökum og því þarf að efla góðan góða rökræðusiði á Alþingi. Mikilvægt er að Alþingi ræki umræðuhlutverk sitt og sé vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta.

Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Brýnt er að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum.“

Þegar ég las skýrslu siðahópsins í fyrsta skipti varð þetta mér mikið umhugsunarefni. Ekki það að þetta kæmi mér á óvart, þvert á móti. Ég var varamaður á þingi 2003–2007 og hef verið aðalmaður frá 2007 og ég hef margsinnis upplifað þetta, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Ég er ekki að tala til einstakra þingmanna núna heldur er ég að tala til þingheims alls, þar með til flokksmanna minna og allra, að hver og einn hér í salnum íhugi þá gagnrýni sem við fáum á okkur og fari eftir henni. Kannski er það í dag sem við förum í prófið, kannski er prófraunin okkar í dag og á morgun hvort okkur takist að taka upp þessa stjórnmálamenningu, þessa umræðusiði.

Ég er ekki að víkjast undan kraftmikilli gagnrýni, því fer fjarri, en við skulum forðast það að fara ofan í skotgrafir. Við skulum ræða þetta plagg hér og þingsályktunartillöguna sem kemur til umræðu síðar málefnalega, af festu, af hugrekki og heiðarleika og af einlægni. Þetta er prófraun á það hvort við viljum taka upp nýja siði eða ekki. Fyrir mér er það prófraun.

Ég ætla ekki að fara nánar í þær úrbætur sem við leggjum til varðandi Alþingi, þetta stendur þarna skýrt og skorinort og ekkert verið að skafa af hlutunum, en ég vil þó segja að ég legg áherslu á að þingið má ekki vera verkfæri í höndum framkvæmdarvaldsins. Dæmin um það eru mýmörg. Það hefur ný stjórnarandstaða e.t.v. upplifað og stjórnarþingmenn frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum og það upplifði ég margsinnis sem varamaður á þingi og sem fastur maður á þingi frá 2007 í stjórnarandstöðu, margsinnis. Meira að segja í tilvikum sem voru svo alvarleg að ég hélt að þau gætu ekki gengið eftir hérna og ég ætla ekki að nefna þau.

Það eru líka ákveðin táknræn atriði sem varða samskipti þingsins við ráðherra sem eru umhugsunarefni, ávörp til þeirra, aukinn réttur þeirra til að grípa inn í umræður, ræðutími þeirra. Við köllum ráðherrana hæstvirta en okkur háttvirta. Þetta eru táknræn atriði. Ég er ekki að leggja mikið upp úr þessu, ég er bara að reyna að sýna sviðið. Þar eru atriði sem við þurfum að huga að.

Það hefur líka gerst í störfum nefndarinnar, og ég verð að víkja að því, að framkvæmdarvaldið hefur truflað störf hennar. Það gerðist á vorþingi í fyrsta skipti og þá má eiginlega segja að starf nefndarinnar hafi meira og minna — ég segi ekki riðlast en við áttum í miklum erfiðleikum vegna þess að nefndarmenn þurftu að sinna öðrum skyldustörfum vegna mikils fjölda mála. Það gerðist líka nú á haustþinginu þar sem fram voru komin loforð og vilyrði um að þingmannanefndin ætti sviðið á haustþingi, það var samdóma niðurstaða forsætisnefndar og forustumanna stjórnmálaflokkanna. Það gerðist ekki, við áttum ekki sviðið eins og ég hélt að mundi verða, og það varð til þess að í tvígang í síðustu viku kallaði ég forseta þingsins á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir gagnrýni minni á þetta. Það sem gerðist var að haldinn var fjöldi nefndafunda, bæði á þriðjudag og miðvikudag, sérstaklega á miðvikudag, um málefni sem voru í ágreiningi inni á þinginu og við vorum í þann mund að missa okkar traustustu ritara í þau störf, það tókst að koma í veg fyrir það. Ef ekki hefði tekist að koma í veg fyrir það og miðað við hversu lítinn tíma við höfðum er ég ekki viss um að við sætum hér í dag og ræddum þessa skýrslu.

Þetta fannst mér vont en að þessu sögðu skal ég ítreka það að gagnrýni mín beinist ekki að þeirri umgjörð sem þingmannanefndinni var veitt, alls ekki, við fengum góða umgjörð, það var allt gert fyrir okkur sem við báðum um, við fengum alla þá sérfræðinga sem við vildum. En þarna birtist mér í verki þessi ágalli eða skortur á sjálfstæði þingsins, hvernig framkvæmdarvaldið getur tekið fram fyrir trekk í trekk.

Það gerðist líka á síðustu dögum og ég er kannski ekki að fara með rétt mál — þeir leiðrétta mig þá — en ég heyrði að á síðustu stundu, eftir að nefnd hafði skilað af sér áliti um skipulagslög, hafi komið fram breyting frá ráðuneytinu. Þá þurfti nefndarfund um það og þá þurfti að taka sviðið af þingmannanefndinni. Þessi dæmi sitja ekkert í mér, ég nefni þau sem dæmi en ekki sem einhverja harkalega gagnrýni. Ég nefni þau sem dæmi til að skýra þá sjálfstæðisyfirlýsingu þingsins sem felst í þessari skýrslu.

Það er alveg ljóst að í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram verulega hörð gagnrýni á starfsemi fjármálafyrirtækja og við tökum undir hana í einu og öllu og jafnvel bætum við hana, ef eitthvað er. Við tökum það fram að stjórnendur og eigendur stærstu bankanna bera auðvitað mesta ábyrgð á hruninu. Það var líka niðurstaða rannsóknarnefndarinnar. Við tökum fram að samfélagið verði að geta treyst því að stjórnvöldum og eigendum fjármálafyrirtækja sé treystandi fyrir almannafé. Þá eigi ekki að setja óreynda menn í að stýra fjöreggi sparifjáreigenda og almennings í landinu, óreynda menn sem enga reynslu hafa af bankaumhverfi. Það er óþekkt úti í hinum stóra heimi.

Það er ótrúlega margt í skýrslunni sem bendir ekki bara til slæmra vinnubragða, þess sem ég kalla lagasniðgöngu, vanvirðingu fyrir lögum og stórfelldra brotalama. Allt þetta gekk fram. Ég sagði einhvern tíma þegar sagt var að endurskoðendur hefðu brugðist og að laga þyrfti lagaumhverfið, að ég væri ekki viss um það. Auðvitað þarf að breyta einhverju þar en skyldur endurskoðenda eru alveg klárar. Það liggja fyrir dómar Hæstaréttar frá því um og í kringum 1990 — sem ég þekki reyndar mætavel því að ég var sérstakur saksóknari í þeim málum, þannig að einhverja þekkingu hef ég á því — þar sem endurskoðendur voru dæmdir fyrir hluti sem þeir svo aftur verða uppvísir að nú, þannig að lagaheimildirnar og annað var fyrir hendi. Niðurstaðan er sú varðandi alvarleika þessa máls, og það er alvarlegt, að það er búið að vísa þeim til sérstaks saksóknara í stórum stíl, bæði eigendum og stjórnarmönnum í stóru bönkunum og fleirum. Þetta er kannski hugarfarið í framkvæmd, þessi pólitíska lömunarveiki sem lýst er, skortur á kjarki, að nýta ekki eftirlitsheimildir sínar, FME til að mynda.

Þegar kemur að eftirlitsaðilunum, þá er sama gagnrýnin, sami áfellisdómurinn sem við tökum undir og með vinnu endurskoðenda, skortur á því að meta og greina umfang vandans. Hver var í því? Enginn.

Við gagnrýnum líka harðlega ákvarðanir Seðlabanka Íslands og lánveitingar Seðlabankans á árinu 2008. Sérstaklega finnst mér það sjálfum ámælisvert að eftir að viðvörunarljósin fóru að blikka svona skært, þau voru ekki gul, þau voru rauð frá ársbyrjun 2008 og fram á haust, skyldi ríkið, þ.e. Seðlabankinn, lána 300 milljarða gegn veðum sem ekki voru haldbær og þurfti ekki mikla sérþekkingu til að sjá það, rétt sæmilega skoðun.

Við tökum stjórnsýsluna fyrir líka og þar er aftur því miður áfellisdómur ítarlega rökstuddur og heiðarlega fram settur. Vel að merkja þegar við erum að gagnrýna Alþingi og eftirlitsstofnanir og stjórnsýslu beinist sú gagnrýni líka að okkur sem sátum í þessari þingmannanefnd að hluta til, við erum þar líka í sjálfsgagnrýni. Við undanskiljum okkur ekki ábyrgð, hún er þarna. En þessi áfellisdómur er að stjórnsýsluna skortir formfestu og verklag og það skiptir máli vegna smæðar samfélagsins og verk- og ábyrgðarsvið voru óskilgreind.

Það sem mér finnst verst í þessu eða með því verra er hvernig ráðherraábyrgðarkeðjan rofnaði, þ.e. hvernig ráðherrar gengu inn á verksvið annarra ráðherra, þeir voru ekki á gráu svæði heldur fóru þeir inn á verksviðið, héldu frá upplýsingum. Og ef menn rýna í það þegar ráðherraábyrgðarkeðjan rofnar þá er vegið að undirstöðu þess lýðræðislega skipulags sem þjóðin býr við.

Það er líka vegið að sjálfstæði Alþingis og möguleikum Alþingis til að iðka eftirlitsskyldu sína. Ef ráðherra er haldið fyrir utan ákvarðanatöku, hvernig getur hann þá sinnt skyldum sínum gagnvart Alþingi? Við skoðuðum það í nefndinni og höfðum af því miklar áhyggjur en það sem ég tel vera brot er ekki heimfært undir sérstakar lagagreinar svo refsingu varði. Það er eitt af því sem við leggjum til að verði endurskoðað, þ.e. lögin um landsdóm og ráðherraábyrgð. Vel að merkja tel ég það vera í ágætislagi. Það þarf að laga ráðherraábyrgðarlögin og svo þarf að svara því umhugsunarefni hvort landsdómur eigi yfir höfuð að vera til. Við tökum ekki beinlínis afstöðu til þess, við vísum því til annarra. En inn í ráðherraábyrgðarlög þurfa að koma ákvæði sem leggja refsingu við því að rjúfa ráðherraábyrgðarkeðju, að vega að undirstöðum lýðræðislegs skipulags. Og það þarf að mínu mati líka að koma ákvæði um sannleiksskyldu inn í ráðherraábyrgð, þ.e. sannleiksskyldu ráðherra — nú tala ég ekki fyrir hönd nefndarinnar. Ráðherrar mega ekki komast upp með að segja þinginu ósatt, að komast upp með það án annarrar ábyrgðar en þá væntanlega pólitískrar sem oft er erfitt að framfylgja í íslensku þjóðfélagi. En ef sannleiksskyldan gagnvart þinginu er ekki virt er líka vegið að undirstöðu lýðræðislega kerfisins. Allt voru þetta umhugsunarefni fyrir mig.

Kaflinn Siðferði og samfélag er merkilegur kafli. Við setjum ekki lög um siðferði en við tileinkum okkur siðferði og eiginlega allt það sem gerðist á þessum tíma var andstætt því sem ég held að flestöll okkar, ef ekki við öll erum alin upp við. Það þarf ekki að finna upp hjólið varðandi þau gildi sem við erum alin upp við, þau hafa margbirst, t.d. í heimspeki og siðfræði. Við vikumst undan þessum gildum eða horfðum fram hjá þeim í taumlausri neysluhyggju og óráðsíu. Við vorum einhvern veginn blind. Þetta þarf að skoða. Við þurfum að taka upp siðferðiskennslu og gildakennslu í skólum, það þarf að taka upp siðareglur hjá sem flestum starfsstéttum, það þarf að samtvinna siðferðislega hugsun og gildi allt frá leikskólum og upp í háskóla. Allar fagstéttir þurfa að tileinka sér siðferðislega hugsun. Þetta er áhyggjuefni.

Ég ætla svo að víkja að einu sem ég var mjög gagnrýndur fyrir í vinnu nefndarinnar, það er að skýrslunni fylgir kynjafræðileg greining á skýrslu rannsóknarnefndar. Það er ekki þannig að ég hafi ætlað að búa til einhverja kynjafræðilega skýrslu sem viki öðru til hliðar og yrði aðalatriðið en skýrsla rannsóknarnefndar aukaatriði. Það er alls ekki svo. En mér fannst vanta það sjónarhorn á skýrslu rannsóknarnefndar og ég vona að þegar menn lesa þessa skýrslu lesi þeir hana með opnum hug, fordómalaust, og ég vona líka að blaðamenn geri henni þannig skil að þeir afvegaleiði ekki umræðuna og geri hana tortryggilega, eins og tillaga mín var gerð á sínum tíma í fjölmiðlum, heldur horfi á með opnum huga. Ég er kannski að segja við fjölmiðla og okkur öll að við ættum fremur að horfa á það jákvæða og halda því á lofti, því að það eru oft fleiri hlutir í málum en hinir neikvæðu. Og það er svo einkennilegt að þegar svona skýrsla er unnin reyna menn að tína ýmislegt út úr henni en við skulum horfa á það jákvæða. Þetta er stórmerkilegt plagg og það horfir til framtíðar, það er aðalatriðið í því sem við ræðum. Ég ætla líka að segja að þessi skýrsla, eins og ég hef sagt áður, er öflugur vitnisburður um styrk Alþingis.

Afraksturinn af þessum meginniðurstöðum, sem eiga síðan þræði inn í niðurstöður okkar í útdráttum og inn í meginniðurstöður og ályktanir rannsóknarnefndar, birtast í tillögu til þingsályktunar. Ég leyfi mér að vísa til formálans, sem er að mínu mati merkilegur, og þeirrar löggjafar sem þarna kemur fram. Við biðjum þar um að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Við gagnrýnum íslenska stjórnmálamenningu alvarlega, að hún sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum og eigendum fjármálafyrirtækja og að eftirlitsstofnanir hafi brugðist. Í síðasta punktinum bendum við á að við skulum öll, ekki bara þingheimur heldur fagstéttir og aðrir úti í þjóðfélaginu, líta í eigin barm, horfa á okkur út frá þeirri gagnrýni sem þarna kemur fram. Lögin, þar sem við viljum breyta þeim forsendum sem ég nefndi, eru síðan talin upp. Það sem ég er hvað stoltastur af í þessari þingsályktunartillögu er að við leggjum til að kosin verði sérstök nefnd á vegum Alþingis sem hafi eftirlit með úrbótum á löggjöf sem þingmannanefndin leggur til í skýrslu sinni að verði hrint í framkvæmd. Miða skal við að þeim úrbótum verði lokið fyrir 1. október 2012. Það þýðir á mannamáli að skýrslan eigi ekki að fara ofan í skúffu og rykfalla heldur eigi að fylgja henni eftir. Þetta er gríðarlega þýðingarmikið atriði og ég vænti þess að verði þessi tillaga samþykkt muni forsætisnefnd leggja fyrir þingið í upphafi haustþings tillögu þar að lútandi um breytingu á þingsköpum. En vel að merkja, þingsköpin eru öll í umræðu og frú forseti hefur lagt upp frumvarp þess efnis að það sé lagt til á þingi. Ég býst við að það verði lagt fram strax en ég hygg að þessi breyting ætti að koma strax inn og beini því til forsætisnefndar að slíkt frumvarp komi fram á haustþingi að því gefnu að þingsályktunartillagan verði samþykkt.

Ég ætla síðan að endingu að hlaupa á nokkrum atriðum í útdráttunum. Þau eru ekki mörg en ég ætla að byrja á bls. 17, bara rétt að kynna vinnuaðferðina og verklagið til sögunnar. Í III. kafla er útdráttur úr meginefni rannsóknarskýrslunnar, mjög styttur, og við höfum haft hana mjög stutta yfir höfuð nema örfáa kafla en við höfum mikið af neðanmálsgreinum þar til að auðvelda lestur þannig að menn geti lesið frá þessari skýrslu og meginniðurstöðunum fram og til baka inn í rannsóknarnefndarskýrsluna. Síðan höfum við tekið fyrir niðurstöður og ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis. Þeim höfum við reynt að halda til haga í heild sinni þannig að þær birtist allar.

Síðan koma á bls. 18 ályktanir okkar og afstaða okkar til niðurstaðna rannsóknarnefndarinnar. Eins og ég sagði áðan tökum við undir þær allflestar og leggjum til að þær verði í meginatriðum lagðar til grundvallar við úrbætur í löggjöf. Það er staðlaður texti sem kemur fyrir út um allt.

Á bls. 25 er atriði sem ég ætla að gera að umtalsefni. Þar segir neðarlega á blaðsíðunni að þingmannanefndin telji ekki ásættanlegt að stefnuyfirlýsingin hafi ekki verið rædd ítarlega innan stjórnarflokkanna og endurmetin þegar á samstarfið leið og sífellt fleiri viðurlög kviknuðu um ofvöxt bankanna í hlutfalli við íslenskan veruleika. Síðan er talað um endurskoðun. Ég var með þessa einu bókun ásamt hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um það sem er neðanmáls. Það var af því tilefni að Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði fram í mars 2005 afar ítarlega greiningu á efnahagsástandinu á hartnær 100 blaðsíðum þar sem greint var frá þeim hættumerkjum sem uppi voru. Þar höfðu menn til hliðsjónar þau hættumerki sem komu upp við erfiðleika fjármálafyrirtækja á Norðurlöndunum, í Svíþjóð og Finnlandi í kringum 1994, ef ég man rétt. Við vöruðum við þessum hættumerkjum og mér fannst það fullmikið sagt líka í skýrslunni vegna þeirrar bókunar sem lögð var fram á fjórum þingum, síðast sem frumvarp. Hér vil ég geta þess, ég hafði það ekki tiltækt í bókun eða neinu slíku, að aðrir þingmenn innan dyra höfðu uppi aðvörunarorð. Ég ætla ekki að nefna þá en ég held að ekki sé hallað á neinn þótt ég nefni Einar Odd Kristjánsson heitinn sem hafði margsinnis hér í ræðustól, sem ég var vitni að sem varaþingmaður, uppi aðvörunarorð. Þau beindust þó fyrst og fremst að Seðlabankanum, en þessa vildi ég geta í athugasemdarnótu og það má kannski álasa Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fyrir að sjást yfir að senda rannsóknarnefndinni þessar ályktanir. Þær voru mjög ítarlegar, þetta voru 80–90 blaðsíður, hagfræðileg og efnahagsleg greining á stöðunni, gríðarlega mikið unnið plagg.

Næst er fjallað um einkavæðingu bankanna þriggja á bls. 28 og á bls. 30 og 31 eru þrjár bókanir um einkavæðinguna og hvort að rannsaka eigi hana. Ég hef legið undir ámælum vegna þess að nafn mitt sem ekki stendur þarna virðist æpa á fjölmiðla og það hefur verið gert að umtalsefni, m.a. í Silfri Egils í gær.

Ég tók ekki afstöðu, ég skilaði auðu. Á því eru tvær meginskýringar: Í fyrsta lagi vildi ég halda samstöðunni endalaust. Það var samstöðuhugsun mín sem gekk í gegnum allt. Það var þá eina ágreiningsatriðið í skýrslunni sem hefði komið til atkvæða á þingi í tillöguflutningi og smitað inn í umræðuna í dag. Samstaða og einhugur réðu því að ég ákvað að skila auðu og ég bið menn að meta það við mig, bæði þá sem vildu fara af stað með rannsókn og hina sem vildu það ekki. Ég vil líka segja að þeir þingmenn sem mæla fyrir um slíka rannsókn eru í fullum færum til að gera það á komandi haustþingi. Í ljósi þessa sá ég ekki ástæðu til að fara inn í annan hópinn og mynda meiri hluta 5:4. Það er ástæðan.

Við ræddum þetta auðvitað innan nefndarinnar en það gerði vinnuna að því leyti erfiðari um þetta málefni að fram kom yfirlýsing frá forsætisráðherra, sem féll í grýttan jarðveg hjá sumum, án þess að ég ætli að segja mína skoðun á því, þess efnis að ef nefndin kæmist ekki að þeirri niðurstöðu að rannsókn færi fram mundi hæstv. forsætisráðherra fara fram með slíka tillögu. Auðvitað eru hæstv. forsætisráðherra og allir þingmenn í salnum í færum til að gera það á haustþingi. Það réð afstöðu minni. Ég mun, þegar og ef slík tillaga kemur fram, að sjálfsögðu taka afstöðu til hennar.

Ég vil víkja að bls. 165. Þar á undan eru reyndar ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis frá bls. 160, um mistök eða vanrækslu ráðherra. Þar eru taldir upp þrír ráðherrar, forstjóri Fjármálaeftirlits og bankastjóri Seðlabankans. Nefndin skilaði frá sér þremur niðurstöðum, ekki bókun, um það, þ.e. fimm þingmenn. Sá sem hér stendur, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Sigurður Jóhannsson tóku undir niðurstöðu rannsóknarnefndar þess efnis að tilgreindir fyrrverandi ráðherrar hafi gert sig seka um vanrækslu. Sama gilti um afstöðu okkar til Fjármálaeftirlits og seðlabankastjóra. Afstaða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og Oddnýjar G. Harðardóttur var á þá leið, eins og ég skil hana, að þau taka undir niðurstöður rannsóknarnefndarinnar um þrjá en ekki einn. Afstaða hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og Unnar Brár Konráðsdóttur var sú, og ég vona að ég fari ekki rangt með það þó að ég segi það með þessum hætti, að það væri ekki í verkahring nefndarinnar að taka afstöðu um þetta.

Ég ætla ekki að fjalla um það á þessu stigi málsins. Ég hef skoðanir á þessu og slíkt en ég ætla ekki að fjalla um þessa vanrækslu núna. Ég get ekki lagt hv. þingmönnum orð í munn en ég hefði viljað tengja þessa niðurstöðu málflutningi og umræðum um þingsályktunartillöguna þannig að umræða okkar í dag verði smitlaus af niðurstöðum og ágreiningi um ráðherraábyrgð. Enda var það svo í nefndinni, af því að við komum að þessum kafla, að við afgreiddum hann og ræddum hann nákvæmlega samhliða ráðherraábyrgð samkvæmt ráðherraábyrgðarlögum. Það gerðum við vegna tengingarinnar þarna á milli. Það er auðvitað órofatenging þó að auðvitað sé mismunandi skilningur á vanrækslu samkvæmt ráðherraábyrgðarlögum annars vegar eins og hún mætti rannsóknarnefnd Alþingis og hins vegar samkvæmt reglum um ráðherraábyrgð. En ég hefði kosið að við mundum ræða þennan þátt málsins undir umræðum um ráðherraábyrgð vegna þess hve nátengt það er og leyfa skýrslunni, þessu gagnmerka plaggi, að eiga einn dag eða umræðu vegna þess að við horfum þar til framtíðar. Við erum í svo mikilvægu verkefni, líklega mikilvægasta verkefni sem þingið hefur staðið frammi fyrir alla tíð. Það er álit mitt, ég tala hér ekki fyrir hönd annarra nefndarmanna í þingmannanefndinni, ég tek það skýrt fram.

Næst er það bls. 170. Þar er mjög merkilegur kafli, þ.e. útdráttur úr skýrslunni um siðferði og starfshætti og þar eru efnistökin þau að á bls. 170 tekur vinnuhópurinn upp lærdóma. Við segjum á bls. 171:

„Um afstöðu þingmannanefndarinnar til framangreindra lærdóma vinnuhóps um siðferði vísast til meginniðurstaðna þingmannanefndarinnar, sbr. kafla 2.5, Siðferði og samfélag.“

Þetta er ekki alls kostar rétt í skýrslunni vegna þess að ábendingar siðferðishópsins endurspeglast líka í umfjöllun um Alþingi, fjármálafyrirtæki, eftirlitsstofnanir og stjórnsýslu. Ég sé það af því að ég las þetta í gær að þarna vorum við heldur ónákvæm vegna þess að fjölmargar ábendingar vinnuhópsins lúta að þeim meginmálaflokkasviðum sem við fjölluðum um.

Þetta er gagnmerkt plagg en ég vil vekja athygli á villu á bls. 180–181 sem varð varðandi hlut forseta Íslands. Ég vísa til þess sem vinnuhópurinn segir eða til útdráttarins, en við upphaflega útgáfu féll niður bókun sem átti að vera þarna. Ég rak augun í það kl. 3 á laugardeginum og þá var það orðið of seint, þá var hún farin í prentun. En á heimasíðu Alþingis … (Forseti hringir.) Ég á ekki langt eftir, ég vona að þingmenn virði það við mig þótt ég fari 2–3 mínútur fram yfir ræðutíma og ég býst við að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir veiti mér þann tíma af sínum kvóta.

Ég nefni þetta, ég ætla ekki að lesa það sérstaklega, en sem kunnugt er andmælti forseti harkalega áliti vinnuhópsins í útvarpsviðtali á síðdegisstöðvum fjölmiðla. Hann tilfærði þar það sem hann kallaði, ef ég man rétt, 16 rangfærslur og vinnuhópur um siðanefnd tjáði sig um það. Þetta eru skjöl sem fylgja. Við leggjum þetta upp eins og það er lagt upp í bókuninni. Við tökum ekki afstöðu en ég vil þó segja að vinnuhóp um siðferði varð á að rangfæra nokkra hluti sem hann taldi ekki breyta neinu um niðurstöðu sína. Í niðurlagi bréfsins, eftir að hafa beðist velvirðingar á þessum mistökum sem vinnuhópnum urðu á varðandi Al-Thani ferð með einhverju flugi og fleira, áréttar vinnuhópurinn hver hafi verið tilgangur skoðunar bréfa forsetans. Að lokum tekur vinnuhópurinn sérstaklega fram að rangfærslur breyti engu um ályktanir sínar og niðurstöður. Það látum við síðan standa og það er hvers og eins að leggja saman tvo og tvo eða að fá útkomu úr þessu. Við erum búin að leggja saman og setja strikið undir.

Ég hef þá lokið þessari umfjöllun minni og ótrúlega lítið syndgað á tímann. Að meginstefnu hefur þetta verið kynning á skýrslunni. Aðrir ræðumenn þingmannanefndarinnar geta þá farið markvissar í einstök atriði og ég veit að þeir munu gera grein fyrir einstökum köflum hennar.

Frú forseti. Yfirferð minni er lokið en verkefnið fram undan er stórt. Okkar bíða gríðarleg verkefni við að útfæra þessa skýrslu. Það var strembið og hefði ekki tekist nema vegna þess að hópurinn starfaði og tileinkaði sér aðferðir sem vinnuhópur um siðferði bendir á. Við hefðum getað verið í skotgröfum og þá værum við komin kannski á fyrstu 10 eða eða 20 blaðsíðunum, búin með 1. bindið. En þetta tókst, það hefði aldrei tekist nema með þessu góða samstarfi, með opnum og hreinskiptum skoðanaskiptum. Þetta hefði heldur ekki tekist ef við hefðum ekki notið starfsumgjarðar Alþingis og enn og aftur nefni ég sérstaklega þátt ritara Alþingis en aðstoð þeirra var ómetanleg. Enn og aftur þakka ég meðnefndarmönnum mínum kærlega fyrir. Þetta var erfitt en þetta var jafnframt ánægjulegt. Takk fyrir mig.