138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:31]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. formanni þingmannanefndarinnar, Atla Gíslasyni, fyrir góð störf og allri nefndinni fyrir þá skýrslu sem hér er til umræðu í dag. Ég tel að þar sé unnið vandað og þarft verk sem við þurfum öll að taka mjög alvarlega á næstu vikum og mánuðum.

Mig langar að nota þennan stutta tíma til að spyrja hv. þm. Atla Gíslason um nánari rökstuðning á þeim atriðum sem tengjast þeirri þingsályktunartillögu sem er í skýrslunni og á sérstaklega við þau atriði sem nefnd eru þar um endurskoðun löggjafar. Í dæmaskyni langar mig að biðja hv. þingmann að nefna hvaða atriði í stjórnarskrá lýðveldisins hann telur þurfa endurskoðunar við. Ég vil sömuleiðis biðja hann um að nefna hvaða atriði hann telur að þurfi endurskoðunar við í lögunum um ráðherraábyrgð og landsdóm.

Hann nefndi hér í andsvari áðan, hv. þingmaður, að lögfræðingar hefðu komið fyrir nefndina sem teldu þessa löggjöf standast tímans tönn. (Forseti hringir.) Það virðist manni stangast á við niðurstöðu þingmannanefndarinnar sem óskar eftir endurskoðun á lögunum.