138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:33]
Horfa

Frsm. þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi það í ræðu minni varðandi ráðherraábyrgðina að ég teldi þurfa að skoða hana, þá átti ég við út frá einstökum atriðum. Ég tel að hún hafi verið tímamótaverk og standist tímans tönn. Það eru þó atriði þar inni sem þarf að skoða og réttmæt gagnrýni hefur komið fram á.

Ég vil nefna eitt dæmi, þ.e. 10. gr. a-lið, sem við byggjum ekki á, hún er ekki talin standast nútímaþróun mannréttinda um skýrleika refsiheimilda. Fræðimenn eru hins vegar sammála um að 10. gr. b-liður standist fullkomlega. Ég nefni það sem dæmi, en það eru fleiri slíkir hnökrar.

Alþingi vann gagnmerka vinnu varðandi endurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar á sínum tíma. Það sem ég og nefndin erum e.t.v. fyrst og fremst að hugsa um, og nú tala ég samt fyrir sjálfan mig, er það sem snýr að Alþingi, það er það sem snýr að forseta Íslands, þættir þar. Það eru þættir sem varða þjóðaratkvæðagreiðslur, aðkomu þjóðarinnar að mikilsverðum (Forseti hringir.) ákvörðunum, og það er (Forseti hringir.) — ja, ég læt þetta nægja í bili.