138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:36]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa yfirferð. Ég held að við séum sammála um að það er mjög mikilvægt að allir þingmenn í þessari þingmannanefnd nái sameiginlegri niðurstöðu um meginefni skýrslunnar. Hún verður að verða okkur veganesti inn í framtíðina og það er mikilvægt að við einbeitum okkur að þeim þáttum sem leiða okkur áfram, fram veginn.

Mig langar í framhaldi af þeim andsvörum og þeim orðum sem hv. þm. Atli Gíslason hafði, sér í lagi um landsdóm. Ég veit að hv. þm. Atli Gíslason hefur í störfum sínum sem lögmaður haft sérstakan áhuga á því hvernig mannréttindaþáttum er fullnægt og þeim skilyrðum sem öllu máli skipta þegar menn eru sóttir til saka.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji, þótt hann hafi sagt að landsdómur hafi staðist tímans tönn, að landsdómur uppfylli nútímaskilyrði og þær kröfur sem við gerum hvað varðar mannréttindi fyrir dómi eins og að honum er búið í lögum nú.