138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:38]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er óhjákvæmilegt að við hv. þingmenn spyrjum um einstök efnisatriði skýrslunnar. Það er eðlilegt að við fáum svör og getum rætt þessa hluti, ráðherraábyrgð og landsdóm. Við verðum að geta rætt þau efnisatriði sem þarna er um að tefla. Þetta eru það mikilvægar ákvarðanir sem fram undan eru, bæði atriði sem varða skýrsluna — hér var talað um einkavæðingu o.fl. í andsvörum. Við verðum að geta átt hérna eðlileg skoðanaskipti um þessi mál.

Ég hygg að það sé almennt skoðun manna að þær meginreglur í sakamálarétti sem við höfum verið að þróa á undangengnum árum séu nú með nokkuð öðrum hætti en sú löggjöf sem samþykkt var árið 1963, að ég hygg, um landsdóm, og á auðvitað rætur að rekja til 19. aldar hugsunar í réttarfari. Ég held að það skipti máli fyrir okkur að taka þessa umræðu hér heiðarlega og spyrja okkur að því hvort við höfum virkilega haldið (Forseti hringir.) að þessir þættir ættu að vera til skoðunar árið 2010.