138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. Péturs Blöndals á því að í skýrslunni er í neðanmálsgrein vitnað til þess frumvarps sem hv. þingmaður hefur lagt fram varðandi gegnsæ hlutafélög, ég man reyndar ekki akkúrat í augnablikinu á hvaða blaðsíðu það er, en það er hægt að (Gripið fram í.) — já, það er hægt að leita að því. Vissulega höfðum við til hliðsjónar þær merku ábendingar sem hv. þingmaður hefur lagt fram hér í þinginu.

Varðandi matsfyrirtækin þá er ég einfaldlega mjög sammála hv. þingmanni um að þau og vinnubrögð þeirra hafi brugðist. Á niðurstöðum þeirra voru margar ákvarðanir stjórnvalda í aðdraganda hrunsins byggðar. Ég tel að það hafi ekki mikið breyst á þeim bænum varðandi vinnubrögð enda erum við enn að hlusta á álit þessara sömu matsfyrirtækja. Ég tel að við ættum aðeins að fara ofan í saumana á því með hvaða hætti þessi virðulegu matsfyrirtæki hafa breytt vinnubrögðum sínum, hvort þau hafi farið í svona naflaskoðun eins og við Íslendingar erum í hér í dag. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé sjálfstætt rannsóknarefni.