138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir ræðu sína og eins framsögumanni þingmannanefndarinnar hér áðan. Í dag er mjög merkilegur dagur. Þeim var báðum tíðrætt um mikilvægi þess að Alþingi nyti sjálfstæðis og að það þyrfti að gera hér margar og miklar breytingar til að styrkja lagasetningu. Eins og þingmenn vita hef ég verið mikill talsmaður þess eftir að ég tók sæti á Alþingi þannig að þetta rímar alveg við skoðanir mínar á því.

Mig langar því til að spyrja þingmanninn, og þetta er kannski aðeins skylt spurningu hv. þm. Péturs Blöndals hér áðan: Hvað finnst þingmanninum um það að eftir hrunið hafi forsætisráðherra skipað hóp sem átti að leggja til úrbætur, raunverulega á undan starfi þingmannanefndarinnar, sem leiddi til þess að stofnuð var lagaskrifstofa í forsætisráðuneytinu í júní 2009 sem hrifsar til sín (Forseti hringir.) löggjafarvaldið sjálft?