138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rannsóknarnefnd Alþingis fór yfir þau rannsóknaratriði sem henni var falið að gera. Þingmannanefndinni voru ekki faldar neinar beinar sjálfstæðar heimildir til rannsóknar þannig að það var ekki þannig að við værum í hlutverki rannsakandans heldur var hlutverk okkar að draga ályktanir af niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis. Það er auðvitað hægt að gera þetta öðruvísi, stjórnarskráin okkar býður upp á þá leið að skipuð sé rannsóknarnefnd alþingismanna. Það var ekki valið að fara þá leið. Ég tel að það hafi verið gæfuspor að það voru þó óháðir sérfræðingar sem unnu að skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ég tel að það hafi verið gott.

Hins vegar eru, eins og hv. þingmanni er kunnugt um, nú fyrirliggjandi drög að breytingum á lögum um þingsköp Alþingis þar sem er lagt til að sjálfstæð eftirlitsnefnd verði til hér í þinginu. Ég tel að í ljósi þess hvernig það hefur (Forseti hringir.) gefist hjá þingum nágrannaþjóðanna að það sé næsta skref sem við eigum að reyna að hrinda í framkvæmd og leið sem við eigum að fara.