138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við förum bæði yfir starfshætti Alþingis í meginniðurstöðum okkar sem eru hér fremst og síðan eru önnur atriði dreifð um skýrsluna sjálfa, í umfjöllun um bindin. Það er ekki bara eitt bindi rannsóknarnefndarskýrslunnar sem fjallar um Alþingi þannig að þetta er svolítið púsl. En við litum jafnframt til þeirrar skýrslu sem gerð var varðandi eftirlitshlutverk Alþingis og í henni koma fram margar tillögur og hún liggur frammi hér í þinginu.

Jafnframt fengum við Bryndísi Hlöðversdóttur til að gera stutt minnisblað þar sem gerð var tilraun til að draga fram helstu atriði til úrbóta sem rannsóknarnefndarskýrslan sjálf benti til og það minnisblað fylgir í viðauka. Ég vísa til þess vegna þess að ég hef svo stuttan tíma.

Varðandi starfshættina er það náttúrlega ekki boðlegt að við alþingismenn höfum ekki þann tíma sem þarf til þess að fara yfir frumvörp sem berast frá ríkisstjórninni. Það er í raun aðalatriðið. (Forseti hringir.)