138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir þetta andsvar. Þar sem ég svaraði bara annarri spurningunni í fyrra andsvari mínu ætla ég að fara aðeins yfir í kaflann varðandi stjórnsýsluna. Í þingsályktunartillögunni kemur fram að við viljum að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum, stjórnsýslu og skorti á formfestu. Þá er kafli í meginniðurstöðum okkar um stjórnsýsluna þar sem er reynt að draga saman þessi helstu atriði. Jafnframt er mörg atriði að finna í bindunum sjálfum eða umfjöllun um niðurstöður okkar úr bindunum sjálfum þar sem við teljum að þessi skortur á formfestu hafi valdið því að ákvarðanir voru ekki teknar á grundvelli nægilega upplýstrar stöðu.

Þetta er gegnumgangandi í skýrslunni og við tökum frekar sterkt til orða og segjum að þingmannanefndin telji að skýrsla (Forseti hringir.) rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu. Þá aðallega vegna verklags og skorts á formfestu.