138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á æðibunuganginum, hann er kannski orðinn manni eðlislægur eftir að hafa unnið hérna um skeið.

Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu er sú að við tölum ítrekað um að draga þurfi lærdóm af fortíðinni til þess að geta unnið betur í framtíðinni, en við megum ekki gleyma nútíðinni, við megum ekki gleyma samtímanum, hvernig við vinnum einmitt núna. Í vor spurði ég t.d. hæstv. fjármálaráðherra hvort oddvitar ríkisstjórnarflokkanna héldu fundargerðir. Svarið var nei. Ég veit ekki hvort það hefur breyst. Það er eitt af því sem við gagnrýnum núna. Það er enginn tími betri til þess en núna að byrja að haga okkur betur. Þess vegna spyr ég: Hvernig stendur á því í svona yfirgripsmiklu máli að enn og aftur skuli maður standa á mánudegi í upphafi þingviku og ekkert vita hvenær við ætlum að taka ákvarðanir í þessu máli? Eitt er á hreinu, ég ætla ekki að standa hérna á miðvikudaginn og eiga (Forseti hringir.) einhverja upplýsta rökræðu um hvort við eigum að fara í (Forseti hringir.) mál við fyrrverandi ráðherra, svo dæmi sé tekið. Ég vil fá að vita hvernig við ætlum að (Forseti hringir.) haga þessari málsmeðferð.