138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans sem var mjög góð. Eins vil ég nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem sátu í þessari nefnd og unnu gott og mikið starf.

Hv. þingmaður kom oft inn á það í ræðu sinni að það væri mjög eðlilegt að við breyttum umræðustílnum á Alþingi í það að við bærum virðingu fyrir skoðunum hvers annars, að við hættum þessum kappræðustíl og ættum hér upplýsta og góða umræðu. Því langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að það kemur fram í þingsályktunartillögu frá nefndinni og þar eru taldar upp breytingar á löggjöf sem þurfi að gera og er m.a. nefnd upplýsingalöggjöfin. Í ljósi þess að ég hef frá því ég kom inn á þing fyrir rúmu ári reynt að fá upplýsingar um á hvaða kjörum lánasöfn nýju bankanna voru færð yfir frá gömlu bönkunum — ég hef ekki fengið þær upplýsingar í hendur enn þá þótt ég sé starfandi þingmaður — vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sjái það fyrir sér að þessum vinnubrögðum verði breytt til að þingmenn geti þá tekið þátt í upplýstri umræðu.