138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég vil að það komi fram að ég ætlaðist ekki til þess að hv. þingmaður þekkti þessa löggjöf sérstaklega. Það sem ég varpaði fram var að ég er búinn að leggja fram bæði munnlega og skriflega fyrirspurn um þær forsendur sem voru fyrir hendi þegar menn færðu lánasöfnin á milli nýju og gömlu bankanna, þ.e. hver í raun og veru væri afskriftageta nýju bankanna til heimilanna í landinu, og ég hef ekkert fengið, eins og kannski er ekki neitt nýtt hér í þingsal, nema útúrsnúninga við munnlegu fyrirspurninni en í skriflegu fyrirspurninni var einmitt vísað til upplýsingalaga. Það sem ég var kannski fyrst og fremst að kalla eftir er hvort hv. þingmaður taki undir það sjónarmið að þingmenn hafi, til að geta átt hér upplýsta og málefnalega umræðu, þau gögn sem þeir þurfa að hafa til þess einmitt að fjalla um málin á upplýstan og málefnalegan hátt. Ekki hvort hv. þingmaður þekki þessi lög sérstaklega, heldur hvort hv. þingmaður sjái þetta fyrir sér. Mikilvægast er að við lærum af þessu og nýtum þetta gagn sem nefndin var að skila af sér.