138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir þær þakkir sem hafa verið færðar til þingmannanefndarinnar hér úr ræðustól í dag, til formanns hennar og allra nefndarmanna, og þakka þeim ræðumönnum þingmannanefndarinnar sem þegar hafa tekið til máls fyrir hve málefnalegir þeir hafa verið og hve vel mál þeirra hefur verið fram sett.

Ég vil spyrja hv. þingmann Sigurð Inga Jóhannsson eftirfarandi spurningar:

Telur hann að nægar leiðbeiningar komi fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hvernig eigi eða eigi ekki að einkavæða banka eða önnur opinber fyrirtæki til þess að óþarft sé að gera frekari rannsókn á einkavæðingu bankanna?

Síðan vil ég einnig spyrja:

Í þingsályktunartillögunni kemur fram að það eigi að auka sjálfstæði þingsins. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvort hann telji að til greina kæmi að aðskilja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið með skýrari hætti heldur en gert í dag, t.d. með því að ráðherrar fari út af þingi meðan þeir gegna ráðherraembætti. (Forseti hringir.)