138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem tími minn er knappur ætla ég að fara hratt yfir sögu, þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni andsvarið og svara strax seinni spurningu hans. Varðandi hvort það komi til greina að skýra mörk á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds með því að ráðherrar víki tímabundið af þingi sem þingmenn er mér það mjög að skapi. Það er stefna framsóknarmanna þannig að ég tel að það kæmi vel til greina.

Varðandi það hvort næga leiðbeiningu sé að finna í rannsóknarskýrslu Alþingis um hvernig við eigum að stunda sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja tel ég að svo sé ekki. En það má nefna nokkra hluti eins og að gefnar hafa verið út skýrslur af OECD, Ríkisendurskoðun hefur margítrekað farið yfir slík mál og komið með leiðbeiningar. Hv. þingmaður nefndi líka sjálfstæði þingsins og ég tel að þingið eigi einmitt að fara yfir það og velta því fyrir sér hvernig slík rammalöggjöf eigi að líta út.