138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:18]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum fyrir ágæta og málefnalega yfirferð og ræðu. Það er eitt atriði sem ég vildi inna hann eftir sem kom fram í máli hans, það kemur einnig fram í skýrslu nefndarinnar, bæði á bls. 6, þar sem fjallað er um meginniðurstöður og ályktanir nefndarinnar og er jafnframt vikið að á bls. 73 og varðar innleiðingu svokallaðra EES-gerða í íslenskan rétt og þinglega meðferð þeirra.

Af því að nefndin leggur áherslu á að vinnulag verði bætt í þeim efnum spyr ég þingmanninn hvort nefndin hafi fengið til umfjöllunar eða rætt reglur um þinglega meðferð EES-mála? Þær voru samþykktar í forsætisnefnd í ágústmánuði sl. og fyrirhugað er þær að taki gildi 1. október nk. þar sem verið er að reyna að tryggja betri meðferð þessara mála hjá Alþingi, m.a. með aðkomu fleiri fagnefnda og með því að utanríkismálanefnd og þingmannanefnd EFTA fundi sameiginlega um EES-mál. (Forseti hringir.) Hefur það komið til umfjöllunar í nefndinni og telja nefndarmenn að þetta sé fullnægjandi?