138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Mig langar að þakka öllum sem komu fyrir nefndina sem og nefndarmönnum og starfsfólki nefndasviðs kærlega fyrir mjög fróðlegt og gagnlegt samstarf.

Ég ætla að fjalla um 8. hefti skýrslu rannsóknarnefndar þar sem siðferði og starfsháttum í tengslum við fall íslensku bankanna 2008 eru gerð skil á mjög ítarlegan og beinskeyttan hátt. Áttunda hefti skýrslu rannsóknarnefndarinnar tæpir á öllum öðrum heftum skýrslunnar, þó er sjónarhorn siðferðiskaflans mjög afdráttarlaust í að benda á skort á siðferðisþreki víða í samfélagi okkar sem hefst í efstu lögum samfélagsins og smitast niður í grasrótina.

Í raun má segja að verið sé að leggja til að samfélagið gjörvallt verði siðvætt. Það er að sjálfsögðu eitthvað sem tekur langan tíma. Til að hægt sé að skilja hvað laga þarf er nauðsynlegt að skoða ofan í kjölinn hvar brestirnir liggja svo að hægt sé að læra af öllum þeim misbrestum sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar bendir á svo umbúðalaust og undanbragðalaust.

Ég mun stikla á stóru um helstu niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis sem birtist í 8. hefti skýrslunnar. Það var ánægjulegt að þingmannanefndin tók undir nánast allt sem þar var kallað á og er kallað lærdómar í niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Frú forseti. Í inngangi 8. heftis er almennt vikið að viðhorfum samfélagsins til siðferðislegrar hugsunar. Þar segir:

„Siðferðisleg hugsun hefur átt erfitt uppdráttar m.a. vegna þess að ákveðið viðmiðunarleysi hefur verið ríkjandi um ágæti markmiða og vantrú á rökræðu um þau. Slík afstaða býr í haginn fyrir að sérhagsmunir þrífist á kostnað almannahagsmuna en það er eitt megineinkenni á því hugarfari sem ríkti hérlendis í aðdraganda bankahrunsins.“

Vík ég þá að samfélagslegri ábyrgð og lúxuslífinu:

„Í þessum kafla er tekið fram að bankarnir hafi verið stórtækir í stuðningi sínum við íslenskt samfélag og menningu, ekki síst íþróttir. Þessir styrkir hafi verið mjög til þess fallnir að styrkja ímynd fyrirtækjanna. Þá er vikið að óhóflegum boðs- og veiðiferðum bankanna og „munaðarlífi“ auðmannanna sem þeir reyndust í mörgum tilvikum ekki borgunarmenn fyrir. Er talið að það lýsi siðferði óhófs, flottræfilsháttar og drambs sem gangi þvert á þau gildi sem lengstum einkenndu íslenskt samfélag á 20. öld.

Vinnuhópurinn dregur þá ályktun að bankarnir hafi breitt úr sér á uppgangstíma þeirra og umturnað ekki aðeins íslensku viðskiptalífi heldur samfélaginu öllu. Miklum fjármunum hafi verið útdeilt undir merkjum samfélagslegrar ábyrgðar sem oftar en ekki tengdist beint markaðssetningu bankanna. Talið er að í umræðu um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja sé hins vegar mikilvægast að huga að beinni ábyrgð viðskiptalífsins og að stjórnendur þeirra geri sér grein fyrir því siðferðislega samspili sem fyrirtæki eiga við samfélagið. Mikilvægast sé að þau geti ekki skotið sér undan ábyrgð á eigin starfsemi og þeirri áhættu sem henni fylgir, í stað þess að gera kröfu um að þau skipti sér af málefnum sem snúa ekki beint að þeirra rekstri.“

Það sem er kallað hér eftir í þessari ræðu minni „lærdómar vinnuhóps um siðferði“ eru sem sagt lærdómar vinnuhópsins en ekki þingmannanefndarinnar en þingmannanefndin tók heils hugar undir:

„Þrátt fyrir að ekki sé dregið úr mikilvægi þátttöku fyrirtækja í samfélagslegum verkefnum er mikilvægt að almenningur sé meðvitaður um muninn á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og fjárútlátum sem einkum er ætlað að styrkja ímynd fyrirtækjanna.

Íhuga þarf alvarlega að setja fyrirtækjum viðmið um það hve mikla fjármuni þau geta veitt í formi styrkja og gjafa til viðskiptavina og ótengdra aðila. Mikilvægt er að gegnsæi ríki um slíka styrki.“

Í kaflanum Stefnumótun og samskipti: smæð í alþjóðlegu samhengi segir, með leyfi forseta:

„Í þessum kafla er fjallað um þá stefnumótun sem bjó að baki starfsemi bankanna og hún skoðuð í samhengi við alþjóðlegt fjármálalíf og smæð hins íslenska samfélags. Farið er yfir ýmsar upplýsingar sem varpa ljósi á sjálfsmynd þeirra sem stjórnuðu bönkunum og stóðu að „útrásinni“. Þá er vikið að hugmyndinni um að Ísland yrði alþjóðleg fjármálamiðstöð og áhersluna á vöxt bankanna sem oft birtist í grimmri samkeppni þeirra innbyrðis í útlöndum. Minnt er á að íslensku bankarnir hafi starfað í alþjóðlegu umhverfi og tekið mið af starfsháttum sem tíðkuðust víða um lönd. Hins vegar virðist hafa gleymst að þeir komu frá örríki sem hafði lítinn raunverulegan styrk til að standa með þeim þegar gefa fór á bátinn. Ekki virðist hafa verið jarðvegur fyrir umræðu um stærð bankanna og möguleika á flutningi þeirra úr landi. Þá er fjallað almennt um samskipti manna á leiksviði fjármálalífsins og innbyrðis tengsl þeirra.

Vinnuhópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að uppsveiflan í samfélaginu á tímum góðærisins hafi ekki aðeins blásið upp efnahagskerfið heldur einnig oflæti hér á landi. Ýmsir töldu að þeim væru allir vegir færir og þeir væru miklu stærri og sterkari en raunin var. Íslensk fjármálafyrirtæki færðust allt of mikið í fang, einbeittu sér að því að vaxa ógurlega í stað þess að muna að menning er að gera hlutina vel. Það gleymdist að styrkja innviðina og vinna úr þeim verkefnum sem menn höfðu tekið sér fyrir hendur. Þegar syrti í álinn haustið 2008 tók sundurlyndi, vantraust og ringulreið völdin sem gerði samhæfðar aðgerðir ómögulegar.“

Áfram segir: „Íslendingar þurfa að gera sér grein fyrir stöðu þjóðarinnar í alþjóðlegu samfélagi og hvaða mörk fámennið setur þeim.

Fámenni getur verið bæði styrkleiki og veikleiki. Stuttar boðleiðir geta bæði verið kostur en einnig bitnað á faglegum vinnubrögðum þegar boðleiðir eru óformlegar.“

Þá víkur sögunni að hrunadansinum. Fjallað er um viðbrögð stjórnenda bankanna eftir að óveðursskýin tóku að hrannast upp í fjármálaheiminum sumarið 2007. Bent er á að lítil merki hafi þá verið um það í efnahagslífinu að draga þyrfti saman seglin enda almenn neysla þá í hámarki og bankarnir buðu í lúxusferðir. Árið 2008 hafi verið farið að hrikta alvarlega í fjármálastoðunum og vaxandi óþols farið að gæta meðal innherja og starfsmanna bankanna og þeir hafi viljað losa um eigur sínar í þeim. Á sama tíma voru peningamarkaðssjóðir auglýstir sem örugg fjárfesting þó að eignasamsetning þeirra breyttist. Sparifé landsmanna var á þann hátt nýtt til að halda fyrirtækjum með lífsmarki. Helsta uppspretta fjármagns þegar hér var komið sögu voru innlán Landsbanka og Kaupþings erlendis.

Vinnuhópurinn dregur þá ályktun að eftir því sem nær hafi dregið bankahruninu hafi áhættan í auknum mæli verið færð heim til Íslands og þaðan yfir á almenning. Bankarnir hafi brugðist við öllum merkjum um veikleika með því að setja upp pótemkíntjöld til að draga athyglina frá þeim erfiðleikum sem að steðjuðu. Stjórnendum virðist hafa verið fullljóst þegar leið á árið 2007 að verulega hefði sigið á ógæfuhliðina og lítið þyrfti til að kerfið hryndi til grunna. Við tók hrunadans sem stóð þangað til Lehman-bankinn féll í Bandaríkjunum og allt traust hvarf á fjármálamörkuðum. Enginn var fær um, eða hafði kjark til, að grípa í taumana fyrr. Bent er á að hugsanlega hafi enginn viljað bera ábyrgð á því að fella svo brothætt kerfi og hafi því ómeðvitað beðið eftir að höggið kæmi að utan.

Næst verður fjallað um stjórnsýslu, stjórnsiði, stjórnmál, starfshætti og sjálfstæði eftirlitsstofnana:

Vinnuhópurinn fjallar um mikilvægi öflugs ytra eftirlits á vegum stjórnvalda með fjármálastofnunum. Er því haldið fram að svo að bankar þrífist þurfi þeir sterkt ríkisvald sem bakhjarl. Tryggingakerfi innlána eykur áhættusækni og því verði eftirlitsstofnanir að vera grimmir varðhundar almannahagsmuna andspænis sérhagsmunum fjármagnsaflanna. Þá sé það fjárfestum í hag að eftirlitsstofnanirnar séu öflugar því að það sé vísbending um gæði fjármálakerfisins.

Spurt er hvort þær opinberu stofnanir sem áttu að annast eftirlitið hér á landi hafi verið nægilega sjálfstæðar gagnvart fjármálastofnunum. Tekið er fram að skilyrðum sjálfstæðis megi lýsa út frá persónulegum þáttum, svo sem hugrekki til að sinna ströngu eftirliti og færni til að greina stöðu bankanna. Þeim megi líka lýsa út frá stofnanabundnum þáttum og starfsskilyrðum, svo sem valdheimildum, mannafla og fjárhag. Eigi eftirlitsstofnun að geta rækt hlutverk sitt þurfi hvort tveggja að vera til staðar.

Fjallað er almennt um starfshætti og viðhorf hjá Fjármálaeftirlitinu til eftirlitshlutverksins og því velt upp hvort smæð samfélagsins og kunningjatengsl hafi torveldað það. Bent er á dæmi vegna innlánsstarfsemi Landsbankans í Hollandi sem og vegna Icesave-reikninganna í Bretlandi. Vísbendingar eru tíundaðar um að Fjármálaeftirlitið hafi nálgast viðfangsefni sitt út frá þröngri lagahyggju. Enn fremur vísar vinnuhópurinn til tilvika þar sem fyrirsvarsmenn eftirlitsstofnana lýstu yfir trausti á íslensku bönkunum.

Vinnuhópurinn telur að aðgerðir Seðlabanka Íslands til að fá Landsbankann til að færa Icesave-innlánsreikningana yfir í dótturfélag hafi verið ómarkvissar og óformlegar. Svo virðist sem menn hafi ekki treyst sér til að beita sér af hörku í málinu og litið svo á að Seðlabankinn hefði ekki beinar heimildir til þess. Vinnuhópurinn telur það ekki rétt þar sem hægt hefði verið að hóta bindiskyldu. Enn fremur er vikið að samstarfi eftirlitsaðila sem virðist hafa einkennst af stirðu upplýsingaflæði og áhyggjum af valdmörkum.

Vinnuhópurinn dregur þá almennu ályktun að bæði Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafi brugðist meginhlutverkum sínum í aðdraganda bankahrunsins. Eftirliti með einstökum fjármálastofnunum hafi verið verulega áfátt og ekki hafi tekist að tryggja fjármálastöðugleika í íslensku efnahagskerfi. Eftirlitsstofnanirnar sýndu ekki nægilegt sjálfstæði gagnvart stóru íslensku viðskiptabönkunum og nýttu sér ekki valdheimildir sínar sem skyldi. Á því séu bæði persónulegar, hugmyndafræðilegar og stofnanabundnar skýringar, ekki hafi verið vænlegt að líta á bankana sem samherja í baráttunni gegn slæmum viðskiptaháttum.

Lagahyggja var áberandi bæði í starfi Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans þar sem heildarsýn skorti. Þá er talið að fyrirgreiðsla Seðlabankans við viðskiptabankana þegar líða fór á árið 2008, án þess að ganga úr skugga um greiðslugetu þeirra og hversu traust veð þeirra væru, verði að teljast óábyrg meðferð almannafjármuna. Stofnanirnar hafi fengið villandi upplýsingar frá bönkunum en hafi ekki gengið nægilega úr skugga um trúverðugleika þeirra. Bankarnir hafi verið látnir njóta vafans en hagsmunir almennings fyrir borð bornir.

Lærdómar vinnuhóps um siðferði:

„Styrkja þarf faglega innviði, upplýsingakerfi og lagaheimildir Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans sem geri þeim betur kleift að rækja skyldur sínar og gæta almannahagsmuna.

Fjármálastofnunum verði aldrei aftur leyft að vaxa umfram getu eftirlitsstofnana til þess að sinna skyldum sínum með raunhæfum hætti. Stærð fjármálastofnana þarf að taka mið af smæð þjóðarinnar.

Sporna þarf gegn aukinni lagahyggju meðal þeirra fagstétta sem starfa í eftirlitsstofnunum með bættri menntun þeirra og starfsþjálfun.“

Frú forseti. Síðan kemur kafli þar sem fjallað er um stjórnsýsluna.

Í þessum kafla bendir vinnuhópurinn á að skilvirkni, hagkvæmni og heiðarleiki í stjórnsýslunni varði hagsmuni almennings. Höfuðviðfangsefni opinberrar stjórnsýslu sé að skapa borgurunum skilyrði til þess að lifa farsælu lífi. Þau skilyrði varði bæði réttarríkið, sem á að tryggja borgurunum jafnræði og sanngirni, og velferðarríkið sem er ætlað að tryggja öryggi og afkomu borgaranna. Bent er á að stjórnsýslan starfi í mikilli nálægð við hið pólitíska vald. Sú nálægð geti skapað hagsmunaárekstra og spillingu. Smæð samfélagsins skapi ákveðnar forsendur fyrir fyrirgreiðslupólitík. Þessu sé unnt að mæta með setningu siðareglna í opinberri stjórnsýslu. Þeim sé ætlað að skerpa siðferðilega fagvitund starfsmanna, skýra meginskyldur þeirra gagnvart almenningi og auka sjálfstæði þeirra gagnvart stjórnmálamönnum. Bent er á að innra aðhald sé óaðskiljanlegur þáttur í réttnefndri fagmennsku í opinberri stjórnsýslu.

Í þessu samhengi fjallar vinnuhópurinn sérstaklega um starf samráðshóps forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands. Telur vinnuhópurinn að í störfum samráðshópsins megi greina ákveðin stef sem sýni alvarlega veikleika í íslenskri stjórnsýslu og óvandaða stjórnsiði í aðdraganda bankahrunsins. Þessi stef eru eftirfarandi:

1. Frumkvæðisleysi og áhersla á ábyrgð annarra.

2. Sjálfstæði eða ofríki embættismanna gagnvart stjórnmálamönnum.

3. Slæm áhrif pólitískra ráðninga.

4. Skortur á faglegum vinnubrögðum.

5. Ósjálfstæði gagnvart fjármálalífinu og ótti við að valda áfalli.

6. Pólitísk lömunarveiki.

Vinnuhópurinn dregur þær ályktanir að margvíslegir brestir í stjórnsýslunni hafi orðið til þess að vinna samráðsnefndarinnar skilaði sáralitlum árangri. Ráðherrar virðast hafa verið illa upplýstir um gang mála og þeir báru sig heldur ekki eftir upplýsingum. Fyrir vikið sinntu ráðherrar heldur ekki upplýsingaskyldu sinni gagnvart þinginu. Telur vinnuhópurinn að sú skylda hvíli á ráðherrum að afla upplýsinga hjá embættismönnum og þeir geti ekki skýlt sér bak við vanþekkingu. Í krafti stöðu sinnar eða hlutverks beri þeir höfuðábyrgð á að gæta öðru fremur almannahagsmuna sem leiðtogar landstjórnarinnar. Þá hafi vantraust milli einstaklinga í stjórnkerfinu truflað upplýsingaflæði og mikið skort á eðlileg samskipti milli ráðherra. Verulega hafi skort á að gengið væri úr skugga um stöðu mála og að mikilvægar ákvarðanir væru vel undirbúnar og rökstuddar. Illa hafi verið haldið utan um fundargögn og skráningu atburða. Stjórnmálamenn og embættismenn hafi staðið sem lamaðir frammi fyrir bankakerfi sem leyft var að vaxa langt umfram getu stjórnvalda til að ráða við það. Kjarkleysi og skortur á frumkvæði einkenna viðbrögð þeirra. Telur vinnuhópurinn að þó að þetta megi skýra með slæmri embættisfærslu og vanþroskuðum stjórnsiðum hljóti oddvitar stjórnarflokkanna, helstu fagráðherrar og ráðuneytisstjórar þeirra að bera mesta ábyrgð á því hvernig haldið var á málum í stjórnkerfinu.

Lærdómar vinnuhóps um siðferði:

„Efla þarf fagmennsku og stórbæta vinnubrögð innan stjórnsýslunnar, svo sem með vandaðri gagnafærslu og skýrari boðleiðum milli embættismanna og stjórnmálamanna.

Stjórnmálamenn og embættismenn þurfa að setja sér siðareglur sem draga fram og skerpa þá ábyrgð og þær skyldur sem felast í störfum þeirra. Efla þarf þá hugsun meðal stjórnmálamanna að starf þeirra er öðru fremur þjónusta við almannaheill.

Takmarka þarf pólitískar ráðningar innan stjórnsýslunnar við aðstoðarmenn ráðherra, eins og kveðið er á um í lögum.

Skerpa þarf ákvæði um ráðherraábyrgð, svo sem með því að skýra upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi og ríkisstjórn.“

Næst verður vikið að samskiptum stjórnmála og efnahagslífs.

Vinnuhópurinn vekur athygli á því að með alþjóðavæðingu viðskiptalífsins fari stjórnvöld í auknum mæli að líta á hlutverk sitt sem þjónustu við mikilvægar atvinnugreinar frekar en að veita þeim aðhald. Á sama tíma sækist viðskiptalífið æ meir eftir afskiptum af stefnumótun og lagasetningu. Tvenn hagsmunasamtök, Viðskiptaráð og Samtök fjármálafyrirtækja, reyndu eftir mætti að hafa áhrif á lagasetningu um fjármálastarfsemi. Lögðu þau áherslu á að lagaumgjörð viðskiptalífsins væri ekki íþyngjandi, stjórnsýsla væri einföld og að skattar lækkuðu. Bent er á að fín lína geti verið milli þess að búa atvinnugreinum hagstæð skilyrði og þess að þjónusta viðskiptageirann.

Fjallað er um stefnu stjórnvalda varðandi bankana og framkvæmd hennar frá 1999 og fram að hruni bankanna og farið ofan í einstök atriði í því efni. Bent er á að stjórnvöld hafi lítið leitað eftir faglegri úttekt á stöðu fjármálalífsins og bent er á niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar árið 2002 í því sambandi. Vikið er að viðleitni stjórnmálamanna til að sýna íslensku bönkunum samstöðu út á við með yfirlýsingum um að þeir stæðu vel þó að ekki lægi fyrir vitneskja sem var nauðsynleg til að meta hana. Það er afstaða vinnuhópsins að þrjú atriði einkenni viðbrögð stjórnmálamanna við gagnrýni erlendra aðila á stöðu bankanna.

1. Vísað er til skýrslna hagfræðinga.

2. Gagnrýni er oft rakin til vanþekkingar, óvildar og öfundar.

3. Vandinn er greindur öðru fremur sem ímyndarvandi sem bæta þurfi úr með samstilltu átaki stjórnmálamanna og fulltrúa viðskiptalífsins.

Traust virðist því hafa ríkt milli stjórnmálamanna og aðila í fjármálalífinu. Bent er á að það sé ekki hlutverk stjórnvalda að taka sér stöðu með fjármálafyrirtækjum til að telja umheiminum trú um að þau standi vel nema stjórnvöld hafi fyrir því haldbærar upplýsingar og traust rök. Bent er á að þær skýrslur hagfræðinga sem stjórnvöld voru gjörn á að vísa til hafi verið fjármagnaðar af Viðskiptaráði en gagnlegt hefði verið að hafa sjálfstæða stofnun á borð við Þjóðhagsstofnun til þess að þjóna stjórnmálamönnum á þessum tíma.

Í skýrslunni er enn fremur gerð athugun á styrkjum og fríðindum frá viðskiptabönkunum þremur til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Af þeirri athugun megi ráða að fjölmargir stjórnmálamenn og samtök þeirra hafi þegið styrki frá bönkunum og er enginn stjórnmálaflokkur fyllilega undanskilinn. Það sé alvarlegt mál í lýðræðisríki að almannaþjónar myndi með þessum hætti fjárhagsleg tengsl við fjármálafyrirtæki.

Almennt dregur vinnuhópurinn þær ályktanir að stefnumótun um fjármálakerfið hafi verið lítilfjörleg og einkennst helst af hugmyndum um afnám íþyngjandi eftirlits svo að fjármálastofnanir sæju sér hag í að vera og vaxa hér á landi. Ekki hafi verið brugðist við tillögum sem hefðu gert eftirlitsaðila betur í stakk búna að setja fjármálafyrirtækjunum mörk. Skortur hafi verið á sjálfstæðri ráðgjafarstofnun um efnahagsmál. Þá hafi helstu ráðamenn sýnt bankamönnum ógagnrýna samstöðu og gengið erinda þeirra víða um lönd. Margir þeirra brugðust illa við erlendri gagnrýni á bankana og féllu í þá gryfju að rekja hana til öfundar eða óvildar eða telja vanda bankanna einkum vera ímyndarvanda. Framganga margra stjórnmálamanna beri vott um skort á fagmennsku og gagnrýnni hugsun. Þá hafi fjölmargir stjórnmálamenn og stjórnmálasamtök þegið styrki frá bönkunum sem hafði ekki hvetjandi áhrif á stjórnmálamenn til að veita þeim aðhald og kynna sér stöðu þeirra betur með almannahag að leiðarljósi.

Lærdómar vinnuhóps um siðferði.

„Styrkja þarf faglegt bakland stjórnkerfisins til að auðvelda stjórnmálamönnum að sækja sér hlutlæga ráðgjöf og fá áreiðanlegar upplýsingar. Þar með væri jafnframt dregið úr líkum á illa grunduðum ákvörðunum stjórnvalda.

Setja þarf skýrar reglur um styrki til stjórnmálamanna og um gegnsæi í bókhaldi stjórnmálaflokka.

Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.

Stjórnmálaflokkar þurfa að vanda mun betur til stefnumótunar svo kjósendur átti sig betur á þeim valkostum sem þeir standa frammi fyrir.“

Næst verður vikið að íslenskri stjórnmálamenningu.

Í upphafi þessa kafla er talið að eitt einkenni stjórnmálamenningarinnar hér á landi sé að foringjar eða oddvitar flokkanna leiki lykilhlutverk en hinn almenni þingmaður sé atkvæðalítill. Bent er á að þar sem stjórnsiðir séu slæmir og stjórnkerfið veikt geti sterkir stjórnmálamenn verið varasamir. Í foringjaræði verði hlutur löggjafarþingsins einkum að afgreiða mál sem undirbúin hafa verið í litlum hópi lykilmanna. Þannig gegni þingið formlegu löggjafarhlutverki sínu, en bæði umræðuhlutverkið og eftirlitshlutverkið sé vanrækt.

Vinnuhópurinn telur að íslensk stjórnmál hafi ekki náð að þroskast í samræmi við hugsjón lýðræðisins þar sem þingið er hugsað sem vettvangur rökræðu um almannahagsmuni. Stjórnmálin hafi þvert á móti oft einkennst af kappræðu og átökum þar sem markmiðið er að sigra andstæðinginn og sannfæra áheyrendur. Slík stjórnmál séu nánast dæmd til að þess að vera ófagleg því að niðurstöður ráðast af aflsmun fremur en góðum röksemdum sem byggjast á traustum upplýsingum. Í þessu sambandi er bent á að í aðdraganda bankahrunsins hafi Seðlabankinn haldið fundi með oddvitum stjórnarflokkanna en að þeir hafi hvorki séð ástæðu til að upplýsa ríkisstjórnina um stöðu mála, ekki einu sinni fagráðherra viðskipta, né þingið. Vinnuhópurinn tekur fram að meginverkefnið sé að styrkja stjórnkerfið, leggja rækt við ríkið, svo að það geti gætt betur almannahagsmuna og varist ágangi sérhagsmuna. Styrkur lýðræðisins velti á því að grundvallarinnviðir lýðræðislegs samfélags séu traustir svo að almenningur geti reitt sig á að mál séu faglega unnin, ákvarðanir vel ígrundaðar og öll meðferð almannavaldsins sé hófsöm og sanngjörn.

Í skýrslunni er vikið að þeirri tilhneigingu íslenskra stjórnmálamanna að bregðast við gagnrýni með því að vísa til sakamannareglunnar, sem felur í sér að þeim sé sætt uns sekt er sönnuð, en ekki heiðursmannareglunnar, þar sem ráðamenn taka afleiðingunum af því að stjórnsýsla á þeirra vegum hefur brugðist á einn eða annan hátt með því að segja af sér. Þá er bent á kosti þess ef stjórnmálamenn settu sér siðareglur en með því lýstu þeir því yfir við almenning á hvaða siðferðilega mælikvarða þeim finnst sanngjarnt að verk þeirra séu metin.

Vinnuhópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að Alþingi hafi ekki náð að rækja eftirlitshlutverk sitt með handhöfum framkvæmdarvaldsins með öflugum hætti. Það er rakið til þess að stjórnarmeirihlutinn á hverjum tíma styður ríkisstjórnina og því er það í raun stjórnarandstaðan ein sem veitir ríkisstjórninni aðhald. Vísað er til ábendinga um að raunhæfasta leiðin til að efla þingið sé að styrkja stjórnarandstöðuna. Þó er talið að meginforsenda þess að aðhaldshlutverkið verði öflugra sé að „hernaðarlist kappræðunnar“ víki fyrir upplýstum skoðanaskiptum og að vettvangur rökræðna verði treystur. Ein leið til þess sé að efla fastanefndir þingsins.

Á það er bent í skýrslunni að takmarkaður pólitískur áhugi hafi verið á því á árunum fyrir hrun að hrinda af stað könnun á valdi í íslensku samfélagi eins og lagt var til á Alþingi.

Meginniðurstöður vinnuhópsins um stjórnmálamenningu hér á landi eru að hún sé vanþroskuð og einkennist af miklu valdi ráðherra og oddvita stjórnarflokkanna. Þingið ræki illa umræðuhlutverk sitt. Megináhersla sé lögð á kappræðu á þingi þar sem þekking og rökræður víkja fyrir hernaðarlist og valdaklækjum. Þingið sé líka illa í stakk búið til að rækja eftirlitshlutverk sitt, m.a. vegna ofríkis meiri hlutans og framkvæmdarvaldsins, sem og skorts á faglegu baklandi fyrir þingið. Þá sé skortur á fagmennsku og vantrú á fræðilegum röksemdum mein í íslenskum stjórnmálum. Þá hafi andvaraleysi verið ríkjandi gagnvart því í íslensku samfélagi hvernig vald í krafti auðs safnaðist á fárra hendur og ógnaði lýðræðislegum stjórnarháttum.

Lærdómar vinnuhóps um siðferði:

„Leita þarf leiða til þess að styrkja siðferðisvitund stjórnmálamanna og auka virðingu þeirra fyrir góðum stjórnsiðum. Í því skyni þyrftu þingmenn meðal annars að setja sér siðareglur og skýra þar með fyrir sjálfum sér og almenningi hvernig þeir skilja meginskyldur sínar og ábyrgð.

Draga þarf úr ráðherraræði og styrkja eftirlitshlutverk Alþingis.

Efla þarf góða rökræðusiði meðal þjóðarinnar og kjörinna fulltrúa hennar. Í því skyni þyrfti að vinna skipulega að því í skólum landsins að búa nemendur undir þátttöku í lýðræðissamfélagi með þjálfun í málefnalegri rökræðu og skoðanaskiptum.

Taka þarf stjórnarskrána til skipulegrar endurskoðunar í því skyni að treysta grundvallarinnviði lýðræðissamfélagsins og skýra betur meginskyldur, ábyrgð og hlutverk valdhafa.“

Næst verða samfélagið og samfélagssýnin reifuð.

Í þessum kafla er vikið að megineinkennum þess sem vinnuhópurinn kallar hugmyndafræði afskiptaleysisins og hvernig hún birtist í íslensku samfélagi í aðdraganda bankahrunsins. Þar er vísað til ýmissa ummæla ráðamanna og dregin sú ályktun af þeim að kjarni hugmyndafræðinnar hafi verið að ekki mætti hefta kraft athafnamanna eða þrengja svigrúm þeirra með íþyngjandi regluverki og eftirliti. Í skýrslunni er talið að vöxtur fjármálageirans og veikt aðhald með honum hafi því ekki verið tilviljanakennd yfirsjón heldur rökrétt afleiðing af stjórnarstefnunni.

Vinnuhópurinn vísar enn fremur til þeirra hugmynda sem koma fram í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands, „Ísland 2015“, sem unnin var í samvinnu við áhrifafólk í íslensku viðskiptalífi, háskólum og menningarstofnunum og hafði því nokkuð víðfeðmt bakland í samfélaginu. Í henni hafi birst ákveðin samfélagssýn og stefnan verið sett á að Ísland yrði „samkeppnishæfasta land í heimi“. Þar sé lögð áhersla á samdrátt hins opinbera, einkavæðingu ríkisfyrirtækja og stofnana, fækkun ráðuneyta og lækkun skatta. Regluverkið um rekstrarumhverfi fyrirtækja þyrfti að vera einfalt og skilvirkt þar sem skilvirkni birtist eiginlega sem skrauthvörf fyrir afskiptaleysi. Vinnuhópurinn fjallar um þær hugmyndir sem voru ofarlega á baugi hjá Viðskiptaráði um frelsi sem birtist öðru fremur í formi afskiptaleysis. Í tengslum við það er bent á mikilvægi siðferðislegrar sjálfsstjórnar og ábyrgðar einstaklingsins og skynsemi hans og þroska til að fara vel með frelsið. Minna hafi farið fyrir umræðu um þessa þætti. Bent er á að reynsluleysi starfsmanna hafi einkennt bankana og óraunhæft hafi verið að ætla að þar gæti orðið til sterk innri menning sem gæti staðið undir trúverðugu sjálfsprottnu regluverki.

Í skýrslu vinnuhópsins er vísað til þess að í fjármálalífinu hafi einkum verið lögð áhersla á mannkosti eins og kraft og áræðni sem kennd var við djörfung og hugrekki. Eiginlegt hugrekki sé eins konar rotvarnarefni sálarinnar, það verji menn gegn spillingu því að í krafti þess standi þeir óbilgjarnir á því sem er rétt að gera andspænis freistingu, ótta eða hópþrýstingi. Áræðni sem sést ekki fyrir kallist hins vegar fífldirfska sem er löstur og leiðir til ófarnaðar. Þessir eiginleikar verði ekki kostir nema þeir séu virkjaðir í hófi og góðu skyni þar sem hugað er að afleiðingum athafnanna. Vakin er athygli á því að fyrirtækjamenning sem leggur upp úr miklum hraða og örum breytingum einkennist af óskýrum vinnureglum og laði að sér og geti af sér áhættusækna einstaklinga sem eru reiðubúnir að taka skjótar ákvarðanir sem byggjast á litlum upplýsingum. Dyggðir og lesti verði að skoða í ljósi þess kerfis sem ala þau af sér. Vandinn liggi fremur í samfélagsgerðinni og mikilvægt sé að móta stjórnkerfi sem lágmarki áhrif breytilegra mannkosta og lasta á afdrif samfélagsins.

Þá er bent á að orðræðan um ímynd Íslands hafi verið mjög fyrirferðarmikil í aðdraganda bankahrunsins. Þar voru hugmyndir um sérstöðu og ágæti Íslendinga áberandi og það átti sinn þátt í því að stór hluti þjóðarinnar varð sleginn eins konar blindu á hættumerkin. Það virðist hafa verið trú margra að hægt væri að breyta veruleikanum með ímyndarvinnu sem endurspeglaðist í möguleikanum á að „tala“ markaðinn bæði upp og niður. Í því samhengi leggur vinnuhópurinn áherslu á það að fræðasamfélagið gæti þess að halda til haga viðmiðunum gagnrýninnar rökræðu sem hindri að fræðin sjálf hafni í viðmiðunarleysi sem geti kynt undir þeim spunaveruleika og valdhugsun sem réð ríkjum í íslensku samfélagi og gerði það að verkum að ímyndarsmíð varð mikilvægari en raunveruleikaskyn.

Vinnuhópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að hugmyndafræði afskiptaleysisins hafi búið í haginn fyrir takmarkalítinn vöxt bankanna og í anda þess hafi verið lögð áhersla á að íþyngja ekki fjármálafyrirtækjum með ströngu eftirliti. Framtakssömum en reynslulitlum einstaklingum í viðskiptalífinu var gefið mikið svigrúm til að nota hæfileika sína sem var lýst fjálglega í ræðu og riti. Þær lýsingar voru til marks um drambsemi sem einkenndi m.a. ímyndarskýrslu á vegum stjórnvalda. Þetta átti sinn þátt í því að ekki var hljómgrunnur fyrir aðvörunarorð í aðdraganda bankahrunsins.

Lærdómar vinnuhóps um siðferði:

„Sporna þarf gegn hugmyndafræði afskiptaleysisins með raunhæfri fræðslu um takmarkanir markaðarins og mikilvægi öflugs eftirlits með honum.

Glæða þarf skilning á hlutverki ríkisstofnana í því að skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf, réttarríki og velferðarsamfélag.

Leggja þarf rækt við raunsæja, ábyrga og hófstillta sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar sem byggist á þekkingu og skilningi á menningu okkar og samfélagi.

Þjálfa þarf gagnrýna hugsun og efla læsi borgaranna á hvers kyns áróður og innstæðulausa ímyndarsmíð.“

Víkur þá málinu næst að þætti fjölmiðlanna.

Í þessum kafla er bent á að til þess að borgararnir geti ræktað frelsi sitt til að láta að sér kveða í samfélaginu þurfi þeir að hafa greiðan aðgang að góðum upplýsingum um samfélagið. Þar skipta vandaðir fjölmiðlar sköpum. Vakin er athygli á þríþættu hlutverki fjölmiðla, aðhaldshlutverki, upplýsingahlutverki og umræðuhlutverki. Bent er á mikilvægi sjálfstæðra ritstjórna og að eignarhaldið á fjölmiðlum sé gagnsætt, einnig á mikilvægi kjara- og starfsaðbúnaðar fréttamanna og fagvitundar þeirra og fagmennsku. Vakin er athygli á þeirri hættu að blaða- og fréttamenn ástundi ákveðna sjálfsritskoðun en talin er meiri hætta á slíku í smáu samfélagi þar sem fjölmiðlar eru í fárra eigu og atvinnumöguleikar fjölmiðlafólks takmarkaðir. Þá er bent á að í þeim samfélagsbreytingum sem urðu hér á landi hafi valdið sjálft tekið breytingum. Það birtist ekki einungis að ofan með beinum afskiptum heldur einnig í formi umbunar og „aðlöðunar“. Hætt er við að fjölmiðlamenn hafi ekki verið eins viðbúnir þessari birtingarmynd valdsins.

Það er mat vinnuhópsins að lítil viðleitni hafi verið af hálfu fjölmiðlanna að greina gagnrýni erlendra matsfyrirtækja og greiningaraðila með sjálfstæðum hætti. Þá er í skýrslunni fjallað um störf og hlutverk upplýsingafulltrúa fjármálafyrirtækja sem og vanda fjölmiðla við að fá upplýsingar frá fyrirtækjunum. Bent er á að umhverfið fyrir gagnrýna greiningu hafi ekki verið gott og erfitt hafi verið fyrir fámennan hóp blaðamanna að sjá í gegnum þá ímyndarhlið og spuna sem einkenndi upplýsingagjöf frá bönkunum. Þá hafi jarðvegur fyrir gagnrýni á íslenska fjármálakerfið verið hrjóstrugur. Enn fremur er gerð almenn grein fyrir meginniðurstöðum fjölmiðlagreiningar sem Rannsóknarsetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands gerði að beiðni vinnuhópsins.

Vinnuhópurinn dregur þær ályktanir af athugun sinni á þætti fjölmiðla í aðdraganda hrunsins að þeir hafi ekki auðsýnt nægilegt sjálfstæði og hafi ekki verið vakandi fyrir hættumerkjum. Sjálfsritskoðun virðist hafa verið útbreidd, m.a. vegna þess hve atvinnutækifæri fjölmiðlamanna eru takmörkuð. Í aðdraganda bankahrunsins áttu fjölmiðlar stóran þátt í því hve umræða um fjármálafyrirtækin var bæði umfangsmikil og lofsamleg. Fjölmiðlar eru taldir hafa verið vanbúnir að mæta annarri og vinsamlegri birtingarmynd valdsins. Upplýsingafulltrúar fjármálafyrirtækjanna eru taldir hafa gert sitt til að skekkja myndina fyrir fjölmiðlum og embættismenn í stjórnkerfinu og margir sérfræðingar í háskólum voru ófúsir að tjá sig um viðskiptalífið. Þetta gerði fjölmiðlum erfitt um vik að afla upplýsinga og greina þær. Þá var jarðvegur fyrir gagnrýni ekki frjór.

Lærdómar vinnuhóps um siðferði:

„Leita verður leiða til að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun með því styrkja bæði fagleg og fjárhagsleg skilyrði fjölmiðlunar.

Styrkja þarf sjálfstæði ritstjórna og setja eignarhaldi einkaaðila á fjölmiðlum hófleg mörk. Skylt ætti að vera að upplýsa hverjir séu eigendur fjölmiðla á hverjum tíma svo almenningur geti vitað hverjir eigi fjölmiðil og lagt mat á hvort þar sé fylgt fram sjónarmiðum eigenda.

Efla þarf menntun blaða- og fréttamanna og skapa þeim skilyrði til sérhæfingar í einstökum málaflokkum. Brýnt er að stétt blaða- og fréttamanna efli faglega umræðu og fagvitund meðal félagsmanna.

Koma þarf á faglegu eftirliti með fjölmiðlum sem hafi það að markmiði að tryggja að þeir ræki af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki og verndi almannahagsmuni.“

Þá vík ég að uppáhaldskaflanum mínum um samstöðu og samábyrgð.

Í þessum kafla er þeirri spurningu velt upp hvort „við“ séum öll ábyrg á grundvelli félagslegrar samábyrgðar sem hugar að því hvernig einstaklingar og hópar stuðla að því að viðhalda hugsunarhætti, hegðunarmynstri og verðmætamati sem býr í haginn fyrir tiltekna starfsemi. Í þessu sambandi er bent á að í lýðræðisríkjum beri borgararnir ábyrgð á réttilega kjörnum stjórnvöldum. Hins vegar er það forsenda þess að borgararnir geti axlað þessa ábyrgð vel að þeir búi við góð skilyrði til upplýstrar skoðanamyndunar. Á því voru alvarlegir misbrestir. Nánar er fjallað um forsendur þessarar spurningar og talið eðlilegt að horfa fram á veginn frekar en aftur þegar rætt er um sameiginlega ábyrgð þjóðarinnar. Ábyrgð hennar felist því einkum í því að draga víðtæka lærdóma af því sem gerðist, kynna sér staðreyndir málsins og ræða þær málefnalega.

Vinnuhópurinn bendir á að hin mikla einkaneysla og skuldsetning heimilanna hafi haldist í hendur við hugmyndafræði eftirlitsleysisins en þar er hugmyndin um hinn fullvalda neytanda sett í öndvegi. Hins vegar bendi nýlegar rannsóknir til þess að lífsánægja eða lífshamingja fólks hafi ekki aukist í takt við aukna neyslu. Þá víkur vinnuhópurinn að félagslegum umskiptum í íslensku samfélagi á síðari árum sem í skýrslunni eru kennd við markaðshyggju. Ný og jákvæð viðhorf gagnvart auðsöfnun og meðferð fjár hafi skotið rótum í samfélaginu. Enn fremur er vikið að fjárhagslegum stuðningi bankanna við menningarlífið. Er neyslusamfélagið og markaðsvæðing menningarlífsins talin til marks um hve samofinn vöxtur og viðgangur bankanna hafi verið margvíslegum þáttum í íslensku þjóðlífi. Hættan við þessa þróun hafi verið tvíþætt. Annars vegar að ekki séu virt nægilega þau mörk sem þurfa að vera milli viðskiptalífsins og annarra sviða samfélagsins og hins vegar að hún geti stuðlað að andvaraleysi samfélagsins. Kemst vinnuhópurinn að þeirri niðurstöðu að í þessu efni hafi riðlast mörkin milli hins opinbera og einkageirans sem greiddi fyrir því að fjármálamenn fengu óvenjuháan sess í íslensku samfélagi. Í nafni samfélagslegrar ábyrgðar styrktu þeir margvíslega menningarstarfsemi en vanræktu hina réttnefndu og ríku ábyrgð sem felst í því að stefna ekki þjóðinni í hættu með áhættusamri bankastarfsemi.

Lærdómar vinnuhóps um siðferði:

„Ef takast á að byggja upp öflugra samfélag þarf öll íslenska þjóðin að draga lærdóma af hruni bankanna og tengdum efnahagsáföllum. Mikilvægt er að leita sátta í samfélaginu, en það mun ekki gerast nema þeir einstaklingar sem mesta ábyrgð bera verði látnir axla hana.

Ef einblínt er á sekt einstakra manna er líklegt að við missum bæði sjónar á flóknu samspili einstaklingsathafna við félagslega, menningarlega og efnahagslega þætti og að við förum á mis við þá lærdóma sem draga þarf af svo miklum atburðum.

Þjóðin þarf að endurskoða þá neysluhyggju sem hér hefur verið ríkjandi og gerði það að verkum að áfallið varð mörgum fjölskyldum og einstaklingum þungbærara en ef meiri hófsemd væri í lífsmáta.

Íslendingar verða að læra að draga skýrari mörk á milli þeirra verkefna sem eðlilegt er að fela opinberum aðilum annars vegar og einkaaðilum hins vegar.

Í skólum landsins þarf að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu, efla gagnrýna hugsun og vitund þeirra sem borgara í lýðræðissamfélagi (sbr. ákvæði laga um að búa nemendur undir þátttöku í lýðræðissamfélagi).“

Hér á eftir mun ég svo rekja meginniðurstöður þingmannanefndarinnar sem tengjast 8. hefti skýrslunnar og ber heitið Siðferði og samfélag.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er ítarleg úttekt á því sem aflaga hefur farið í íslensku samfélagi og þess vegna er mikilvægt fyrir alla að líta í eigin barm og nýta það tækifæri sem skýrslan gefur til að bæta samfélagið. Í skýrslunni er flest tekið fyrir, stjórnmál, forsetaembættið, viðskiptalíf, stjórnsýsla, fjölmiðlar, fræðasamfélagið og siðmenning.

Ábyrgð stjórnmálamanna á því sem aflaga fór er mikil. Þeir eru fulltrúar þjóðarinnar sem treystir þeim fyrir fjöreggi sínu og því er mikilvægt að þeir rísi undir því hlutverki.

Grunnur fulltrúalýðræðisins verður að vera trúnaður, traust, gagnsæi og heiðarleiki. Grunsemdin ein er næg til þess að trúnaðarbrestur verði og því verða stjórnmálamenn ætíð að haga orðum sínum og athöfnum út frá trúnaðarskyldum sínum við land og þjóð. Nokkuð virðist hafa skort á að stjórnmálamenn hafi hagað störfum sínum í samræmi við þau gildi. Hagsmunir almennings verða ávallt að vera hafðir að leiðarljósi. Það sem viðgengist hefur í styrkjum til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna er einn þáttur í þeim trúnaðarbresti sem varð. Svo að stjórnmálamenn megi öðlast traust þjóðarinnar að nýju er brýnt að skýrar reglur verði settar varðandi styrki og fjármögnun stjórnmálaflokka og einnig að gagnsæi ríki.

Vinnuhópur um siðferði bendir á að starfsemi margra aðila í viðskiptalífinu einkenndist um of af því að líta svo á að það sem ekki var beinlínis bannað væri þar með leyfilegt. Þingmannanefndin telur að sporna verði við svo þröngri lagahyggju og líta frekar til anda laga í heild.

Fræðasamfélagið verður að taka alvarlega þá gagnrýni sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Endurskoða þarf ákvæði laga um háskóla og laga um opinbera háskóla, einkum með tilliti til fjárhags háskólanna og stöðu og hlutverks starfsmanna þeirra, í þeim tilgangi að tryggja betur frelsi háskólasamfélagsins og fræðilega hlutlægni. Hvetja þarf háskólamenn af ólíkum fræðasviðum til að taka þátt í opinberri umræðu og styrkja með því tengsl fræðasamfélagsins, atvinnulífsins og hins almenna borgara.

Nauðsynlegt er að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Siðfræði og heimspeki ættu að vera sjálfsagður hluti alls náms á öllum skólastigum, sem og gagnrýnin hugsun, rökræður og fjölmiðlalæsi. Í því skyni þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð.

Fjölmiðlar leika lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning, vera vettvangur gagnrýninnar þjóðfélagsumræðu og veita nauðsynlegt aðhald. Þá er mikilvægt að fjölmiðlar haldi í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram alvarleg gagnrýni á að íslenskir fjölmiðlar náðu ekki að rækja þetta hlutverk sitt í aðdraganda bankahrunsins.

Ábyrgð fjölmiðla sem fjórða valdsins er mikil en þar hlýtur ábyrgð Ríkisútvarpsins að vega þyngst. Mikilvægt er að búa svo um hnútana að Ríkisútvarpið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem öflugur fréttamiðill og vettvangur fræðslu, menningar og skoðanaskipta. Þá verður að gera þá kröfu á hendur Ríkisútvarpinu að það beiti sér öðrum fremur fyrir vandaðri rannsóknarblaðamennsku. Nefndin bendir á að fram hefur farið endurskoðun á lögum um fjölmiðla en telur engu að síður brýnt að byggt sé á ályktunum og niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Rétt er að minna á að ábyrgð almennings er mikil og því að vera borgari fylgja ekki einungis réttindi heldur einnig skyldur.

Svo langar mig til að hvetja allan almenning til þess að fara á blaðsíðu 15 í þessu ágæta hefti, í kafla sem heitir Skýrsla þingmannanefndarinnar. Þar er það sem ég er einna stoltust af varðandi þá vinnu sem við tókum að okkur og er tillaga til þingsályktunar um margvíslegar breytingar. Ég sakna þó eins hlutar sérstaklega og það er að heildstæð úttekt á stjórnsýslu landsins fari fram.