138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir frábærar spurningar. Ég verð að taka undir þessa punkta hv. þingmanns og byrja á ráðherrunum. Að sjálfsögðu finnst mér ekki eðlilegt að við sem eigum að heita löggjafarvaldið — svo koma ráðuneytin og skrifa lögin. Síðan mæta ráðherrarnir í þingsal og reyndar er hæstv. utanríkisráðherra einna duglegastur af öllum ráðherrunum við að sitja hérna í þingsal með okkur þannig að hann er næstum því þingmaður. (Gripið fram í.) En að sjálfsögðu ætti það að vera þannig að ef maður er ráðherra ætti maður ekki að vera þingmaður. Þá er kannski eftirsóknarverðara að vera þingmaður en ráðherra ef það er svona rosalega gaman hérna hjá okkur. Mér finnst mjög mikilvæg spurningin varðandi lög sem samin eru í ráðuneytunum og fara síðan yfirleitt í einhvers konar færibandavinnu á þingi út frá þingstyrk.

Auðvitað ættum við að semja fleiri lög og það hefur sem betur fer lagast mjög mikið síðan ég kom inn á þing. Það hafa miklu fleiri þingsályktanir og lög farið í gegn en áður. (Gripið fram í.) — Það hefur lagast aðeins, segir hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Það hefur þó alla vega ekki versnað. En þetta er liður í því sem við þurfum að skoða og ég mæli með því að við í nefndinni tökum við ábendingum og ræðum það hvort ekki þurfi að laga það og bæta við, því að auðvitað vorum við dálítið ein með þessa skýrslu. Ég held að það sé mjög gott að fá ábendingar frá öðrum þingnefndum um það sem við getum hreinlega gleymt því að þetta var mjög viðamikið verkefni.

Ég verð víst að svara þessu með fjárlögin næst þegar ég kem í ræðustól.