138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, alla vega fyrri hlutann. Ég er reyndar mjög óánægður með seinni hluta svars hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Það sem ég kallaði eftir eða var í raun og veru kannski að benda á er að þegar við erum að fjalla um þessa skýrslu þá fjöllum við um hvernig þetta var áður og að við viljum breyta því til framtíðar en við ræðum aldrei núið, þ.e. hvernig við vinnum í dag. Eðlilegast hefði verið að stjórnvöld væru búin að breyta miklu í vinnureglum sínum, hvernig unnið er á hinu háa Alþingi, til þess einmitt að draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem er þó löngu komin fram og það hefur engin breyting orðið.

Ástæðan fyrir því að ég kallaði eftir svörum frá hv. þingmanni um hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði kynnt þessar ákvarðanir í þingflokknum var sú að hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að það væri mjög mikilvægt að málin væru faglega unnin og rædd og öll skýrslan fjallar jú um það að stærstu leyti að styrkja Alþingi og innviði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Um það erum við öll sammála og það er í raun og veru ekki að breytast neitt í dag með þessari ríkisstjórn. Þess vegna kallaði ég eftir því. Þessar þrjár aðgerðir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra komu strax upp í kollinn á mér, þær voru mjög umdeildar og mjög vitlausar að mínu viti, hvernig þær voru gerðar. (Gripið fram í.) — Það stóð aðeins í mér af því að maður ætlar vera svo prúður í umræðunni, þannig að ég var að reyna að finna gott orð. — Það sem ég er að kalla eftir og það sem ég ber von í brjósti um er að við nýtum þetta plagg og stöndum saman. Ég tek alveg undir það sem hv. þingmaður segir að auðvitað er það undir okkur öllum komið hvernig mál munu æxlast. Þess vegna ítreka ég síðari spurningu mína um það hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi kynnt þau þrjú atriði sem ég nefndi í fyrra andsvari í þingflokknum og fengið umboð hans til að fara í þessar veigamiklu breytingar áður en farið var í þær.