138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir mjög hreinskiptna og heiðarlega ræðu. Eins og hennar er von og vísa dró hún ekkert undan í sínum skoðunum eða afstöðu. Fyrst ég er komin í pontu vil ég líka þakka fyrir vinnuna við skýrsluna og nefndarmönnum öllum. Við höfum stigið stórt skref fram á við í kjölfar hrunsins en það er alveg ljóst að mikið verk er óunnið.

Hv. þingmaður sagði það sína skoðun að það væri ekki nóg að vísa til nokkurra mánaða fyrir hrun, eins og ég held að hún hafi orðað það, þegar menn ætluðu í uppgjör við hrunið. Ræturnar lægju dýpra. Um það er ég henni hjartanlega sammála. En hvar liggja þær rætur að mati hv. þingmanns?

Ég sakna þess svolítið í umfjöllun hennar hvaða hlutverki pólitík og hugmyndafræði gegna í aðdraganda hrunsins. Að mínu mati er alveg ljóst að það var tiltekið hugmyndakerfi, ákveðin hugmyndafræði, sem leiddi íslenskt fjármálakerfi og stjórnmálalíf í efnahagshrunið. Hugmyndakerfi og -fræði sem kennd eru ýmist við nýfrjálshyggju eða markaðshyggju og markaðsvæðingu og byggja á því að markaðurinn bæði stjórni þróun samfélagsins og hafi sjálfkrafa eftirlit með sjálfum sér. Þar af leiðandi átti ekki að leggja neina áherslu á eftirlitsþætti og jafnvel þar sem lög kváðu á um slíkt þótti ekki ástæða til að fylgja þeim eftir. Ég vil spyrja hv. þingmann um álit á þessari kenningu sem er býsna viðtekin í samfélaginu.