138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar en minni á að á sama tíma dældi bandaríska ríkið ómældum peningum inn í bandaríska banka, nokkuð sem ekki hefur verið gert upp enn þá. Það var krafa tímans, að ríkin leystu lausafjárvanda fyrirtækjanna, bankanna. Breska ríkið hefur sett þvílíkar upphæðir inn í sína banka. Það er ekki leyst hvernig það verður borgað.

Það var krafan hér á landi, að íslenska ríkið leysti þennan vanda og hann var leystur svona. Auðvitað hefðu menn getað sagt: Við gerum ekki neitt, og þá hefði hrunið kannski orðið þrem, fjórum mánuðum fyrr. Þá hefði umræðan hér verið á þessa leið: Af hverju gerðu menn ekki neitt? Og meira að segja málsóknir um það þar sem menn eru kærðir fyrir að hafa ekki gert neitt, að hjálpa ekki bönkunum yfir þessa lausafjárkrísu sem hefði varað kannski í einhverja mánuði.

Það er vandinn, það er svo erfitt að dæma eftir á þegar við vitum að hrunið varð. Skýrslan segir okkur að það var bara ekki nógu vel unnið, við sjáum það eftir á. Við sjáum það líka að hollenska fjármálaeftirlitið og hollensk yfirvöld vissu hvað var að gerast þegar Icesave-reikningarnir voru stofnaðir í maí 2008, þá vissu þeir það. Af hverju í ósköpunum stoppuðu þeir það ekki með lögum sínum og heimildum? Og af hverju voru menn alltaf að bíða? Menn sömdu fram og til baka, kröfur breska fjármálaráðuneytisins voru þvílíkar ef flytja ætti Icesave-reikningana yfir í breskt fyrirtæki eða breska banka að það var nánast útilokað að uppfylla þær, það hefði þurft að leggja allar innstæðurnar inn einhvers staðar.

Þetta er því mjög margþættur vandi en ég er alveg sammála þeirri niðurstöðu nefndarinnar að menn unnu ekki nógu kerfisbundið.