138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef farið hefði verið í þessa kerfisgreiningu, ef menn hefðu skoðað hvað var að gerast. Og ef maður les t.d. rannsóknarnefndarskýrsluna er það meira að segja spurning hvort þau geri sér alveg nógu vel grein fyrir því að þetta var ekki bara lausafjárvandi heldur líka eiginfjárvandi. Það er það sem ég held að hafi gert það að verkum að menn voru alltaf að reyna að leysa lausafjárvandann í Seðlabankanum, vegna þess að þeir gerðu sér ekki grein fyrir þessu. Svo virðist sem Fjármálaeftirlitið hafi verið úti að aka en vandinn var bara sá að eigendur bankanna gengu um bankana eins og þetta væri þeirra eigin sparibaukur. Það litla fé sem þeir settu inn voru þeir búnir að taka út aftur. Það var ekkert þarna á bak við. (Gripið fram í.) Já. Og það eru mjög þakkarverðar þær ábendingar sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur komið með inn í þingið varðandi hversu mikilvægt það er að við reynum einhvern veginn að leysa úr þessu.

Það var hins vegar svo margt annað sem menn hefðu getað gert. Það var talað um að kröfur t.d. breska fjármálaeftirlitsins hafi verið erfiðar og ekki hægt að koma til móts við þær, en það er líka ýmislegt sem rannsóknarnefndin bendir á að Landsbankinn hefði getað gert. Hann hefði getað dregið úr innlánssöfnuninni, (Forseti hringir.) hann hefði getað notað útibúið og hann hefði að sjálfsögðu aldrei átt að opna Icesave-reikninga í Hollandi, aldrei.