138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

fjarvera ráðherra.

[10:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við búum okkur nú undir að halda áfram umræðum um þá miklu skýrslu sem hv. þm. Atli Gíslason gerði grein fyrir í ræðu sinni í gær sem er afrakstur nefndarstarfs þingmannanefndarinnar. Hv. þingmaður kallaði þetta sjálfstæðisyfirlýsingu Alþingis. Það voru auðvitað stór orð og metnaðarfull og við skulum vona að þau geti gengið eftir. En ekki byrjar það björgulega því að ástæðan fyrir því að við erum að fresta þessum þingfundi er sú að ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið, treystir sér ekki til að sækja þingfund á þeim tíma sem boðaður hafði verið með góðum fyrirvara og þingmenn eru nú komnir til að sækja. Af þeim ástæðum var hæstv. forseta nauðugur einn kosturinn að fresta fundi. Ætlunin var að hæstv. forsætisráðherra hæfi umræðuna hér núna kl. hálfellefu.

Þetta er táknrænt. Það er liðinn nákvæmlega sólarhringur frá því að sjálfstæðisyfirlýsingin var gefin.