138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:11]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki vissulega áhuga hv. þingmanns á því að koma á fót lagaskrifstofu Alþingis, en stofnun lagaskrifstofu hjá forsætisráðuneytinu kemur ekki í veg fyrir að unnið sé vel að málum innan stjórnkerfisins, eins og ég sagði í framsögu minni. Ég nefndi að slíkt á sér fyrirmyndir á hinum Norðurlöndunum, þar eru bæði lagaskrifstofur innan Stjórnarráðsins og innan þingsins. Ég hef talað lengi fyrir því að auka þurfi gæði frumvarpa. Ég hef orðið vör við að hér hefur stundum verið kvartað yfir því að frumvörp sem koma frá Stjórnarráðinu mættu vera betur unnin. Ég kveinka mér ekkert undan gagnrýni en mér finnst það mjög sérkennilegt að þegar við reynum að bæta störf okkar með því að stofna lagaskrifstofu til þess að auka gæði frumvarpa sé kvartað yfir því í ræðustól.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel að þetta eigi að vera til á báðum stöðum, innan Stjórnarráðsins og innan Alþingis þannig að við leggjum okkur öll fram, bæði í stjórnsýslunni og á Alþingi til að gæði lagafrumvarpa verði sem mest.