138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svar hennar sem var nú kannski ekki það svar sem ég óskaði eftir, því að hv. þm. Atli Gíslason sagði orðrétt í umræðu í gær, með leyfi forseta:

„En við segjum að við viljum ekki að Alþingi sé verkfæri í höndum framkvæmdarvaldsins.“

Skýrara getur það ekki verið.

Mig langar líka að vísa í umsögn sem barst frá forsætisráðuneytinu varðandi frumvarp til laga um lagaskrifstofu Alþingis, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki er hægt að þróa tvær aðskildar lagaskrifstofur, annars vegar á vegum Stjórnarráðs Íslands og hins vegar hjá Alþingi með áþekk hlutverk. Með því væri hætta á ósamræmi, tvíverknaði og bágri nýtingu sérþekkingar. Gott dæmi um ákjósanlega leið sem farin hefur verið til að auka gæði lagasetningar er að um árabil hefur verið gott samstarf ráðuneytanna og skjaladeildar Alþingis um málfarslegan yfirlestur lagafrumvarpa.“

Frú forseti. Ég er að vísa í umsögn frá forsætisráðuneytinu sem barst allsherjarnefnd við frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis. Þarna segir forsætisráðuneytið með öðrum orðum að nefndasvið Alþingis sé fullgott til þess að fara í málfarslegan yfirlestur en eigi að öðru leyti ekki að skipta sér af lagasetningu.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra á ný: Er forsætisráðherra tilbúin að gefa þetta eftir, að auka sjálfstæði Alþingis til lagasetningar og færa þessa skrifstofu til Alþingis þar sem hún á svo sannarlega heima, til þess að auka þennan aðskilnað?