138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðu hennar. Nú kemur fram í niðurstöðum þingmannanefndarinnar að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshluta þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar. Nú er það þekkt og menn viðurkenna það almennt að skipta eigi ríkisvaldinu í þrennt; löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Og ég hef alltaf furðað mig á því að flestöll frumvörp sem verða að lögum eru samin og þeim er ritstýrt í ráðuneytum. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem hefur löngum barist fyrir lýðræði og auknu valdi Alþingis, og það er rétt, hvort hún sé sátt við að flest frumvörp sem verða að lögum séu samin og þeim ritstýrt í ráðuneytum, og meira að segja í stofnunum ríkisins sem eiga að framkvæma þau sömu lög. Væri ekki eðlilegra að Alþingi, sem hefur löggjafarvaldið, semji og ritstýri öllum frumvörp þannig að ráðuneyti sem og aðrir í þjóðfélaginu geti beint því til nefnda eða einstakra þingmanna að flytja frumvarp um tiltekið mál. Og þá taki nefndin ákvörðun um það hvort hún vilji flytja viðkomandi mál og ef ráðherrann hefur þingmeirihluta hefur hann það væntanlega í nefndinni líka, þannig að málið verði samið og því ritstýrt af þingmönnum og svo vísað til ráðuneytis til að spyrja hvernig gengur að framkvæma það. Nú er þetta öfugt. Þingmönnum er falið að rannsaka hvort lög frá framkvæmdarvaldinu séu framkvæmanleg. Mér finnst þetta fráleitt.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Væri ekki gott ráð til að bregðast við ádeilum um sjálfstæði þingsins að snúa þessu við?