138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:21]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, sem fram hefur komið, og kom fram í framsögu minni, að ég hef nokkrum sinnum flutt frumvarp um breytingu á landsdómi, að hann verði lagður niður og ábyrgð gagnvart ráðherrum verði sótt fyrir almennum dómstólum. Ég tók eftir því í gær að formaður þingmannanefndarinnar, Atli Gíslason, fékk svipaðar spurningar. Hann vísaði til þess að hann vildi svara þeirri spurningu þegar teknar væru fyrir þær þingsályktunartillögur sem lúta að þeim málum. Ég ætla bara að lúta leiðsögn formanns nefndarinnar í því og bíða með að fjalla um það mál.