138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kom víða við í ræðu sinni. Það er einkum tvennt sem ég vildi vilja inna hann eftir af því sem hann tæpti á. Hann ræddi sérstaklega um stöðu efnahagsmála, um að ríkisfjármálin hefðu verið í góðu lagi á sínum tíma í aðdraganda þessa hruns. Einkum var hann að ræða um tímabilið eftir 2003. Menn hefðu hins vegar ofmetið ríkistekjur og vanmetið viðskiptahallann ef ég skildi hann rétt. Hann sagði líka að menn þurfi að hafa haldbærar og áreiðanlegar upplýsingar um stöðu efnahagsmála. Í skýrslu nefndarinnar er lagt til að ráðist verði í að stofna sérstaka stofnun, einhvers konar efnahagsstofnun, einhvers konar þjóðhagsstofnun, sem á að vera, eigum við að segja, hlutlaus aðili sem hefur eftirlit með og yfirlit yfir stöðu efnahagsmála almennt, hugsanlega á vegum Alþingis. En ríkisstjórnin tók á sínum tíma, stjórn sem hv. þingmaður studdi, ákvörðun um að leggja niður Þjóðhagsstofnun.

Ég vil inna hann eftir afstöðu hans til þeirrar ákvörðunar að leggja niður Þjóðhagsstofnun og þá í framhaldinu hvort hann styður þær hugmyndir sem þingmannanefndin er með um að setja á laggirnar stofnun af þessum toga.

Ég vil einnig inna hann eftir því, af því hann gat sérstaklega um afstöðu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er í skýrslunni á bls. 25 og 26 gerð grein fyrir bókun þingmannanna Atla Gíslasonar og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur varðandi afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þessum tíma, m.a. vísað í þingmál sem flokkurinn flutti, þar sem m.a. er lagt til að aðhald í ríkisfjármálum verði tryggt og slegið af þenslu m.a. með því að fresta skattalækkunum eins og fram kom í þessum þingmálum. Nú vil ég inna hv. þingmann eftir því hver afstaða hans hafi verið til þessara þingmála þegar þau komu fram hér á árunum 2005 og síðar vegna þess að þingmaðurinn var þá einmitt á þingi og hafði aðstöðu til að ljá þeim stuðning sinn.