138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:55]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi ríkisfjármálin.

Ég held að hv. þingmaður hafi aðeins misskilið málflutning minn varðandi þau. Meginatriðið er að staða ríkisfjármála var ekki eins góð og hún virtist vera á yfirborðinu. Jafnvel þótt við værum með þennan afgang og gætum á sama tíma greitt upp skuldir og lækkað skatta var þetta ástand sem ekki var hægt að viðhalda til lengri tíma. Það var það sem ég var að segja.

Varðandi sérstaka þjóðhagsstofnun eða einhvern aðila sem leggur mat á stöðu efnahagsmála hverju sinni og er þinginu og eftir atvikum stjórnvöldum til ráðgjafar þá tel að það sé skynsamlegt. Ég lagði það reyndar til í grein sem ég skrifaði í febrúar 2008 að slíkri rannsóknarstofnun eða skrifstofu yrði komið á innan háskólaumhverfisins þar sem menn tækju út stöðu bankanna, fjármálanna, á hverjum tíma og legðu mat á hættur og tækifæri í stöðunni. En ég er þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt og nauðsynlegt fyrir okkur á þinginu og það er hluti af þeim verkfærum sem við þurfum að hafa til þess að geta lagt mat á forsendur fjárlaga og annað þess háttar að geta átt aðgang að slíkum hlutlausum upplýsingum.

Varðandi tillögur Vinstri grænna frá þessum tíma man ég vel eftir þeim umræðum hér. Við vorum m.a. að takast á um það hvort ástæða væri til að hafa áhyggjur af þessum mikla viðskiptahalla. Ég féllst alveg á það. Ég trúði því að við gætum snúið honum við án þess að verulegar breytingar yrðu á genginu innan fárra ára, vegna þess að ég trúði því á sínum tíma að útflutningurinn, sem mundi fylgja þessu háa framkvæmdastigi sem við vorum þá í, mundi hjálpa okkur á þeim árum sem voru fram undan. Ég ofmat þá stöðu eins og svo margir aðrir. (Forseti hringir.) En Vinstri grænir ætluðu samt sem áður, eins og ég vék að í ræðu minni, að nýta þetta aukna svigrúm til aukinna ríkisútgjalda. Og það hefði verið óskynsamlegt. (Forseti hringir.)