138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég skildi hv. þingmann alveg nákvæmlega eins og hann var að reyna að skýra, nefnilega þannig að afgangurinn á ríkisfjármálunum á fjárlögum hafi byrgt mönnum sýn og menn hafi ekki séð og áttað sig á því sem var undirliggjandi. Það var afgangur á ríkisfjármálum og þá töldu menn að þar með væri bara öllu bjargað og allt í góðu lagi. Auðvitað reyndist svo ekki vera, ekki var innstæða fyrir því. Þá hefði einmitt einhvers konar stofnun í takt við Þjóðhagsstofnun getað verið góð ef hún hefði verið til staðar vegna þess að þær upplýsingar sem menn voru að reyna að sjá voru allar beint úr stjórnkerfinu sjálfu, frá þessum sömu ráðherrum sem fóru með stjórnina. Nú hristir hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hausinn, hann verður bara að eiga það við sig hvað hann ætlar að hrista hann lengi.

Ég tel að það hafi verið mikil mistök á sínum tíma að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Hv. þingmaður svaraði því nú ekki afdráttarlaust hvort hann teldi það, en hann alla vega lýsti sig stuðningsmann þess að einhver stofnun af álíka toga verði sett á laggirnar. Ég fagna því að sjálfsögðu.

Varðandi afstöðu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á sínum tíma verður farið betur yfir það hér í ræðum á eftir. Ég bara ítreka og minni á þau þingmál sem getið er um í skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þeim tíma varaði einmitt sterklega við þeirri þróun sem var í gangi án þess að á það væri hlustað þannig að þáverandi stjórnvöld skelltu í raun við skollaeyrum og vildu ekki taka alvarlega, kannski vegna þess að þetta kom frá stjórnarandstöðunni. Það er kannski líka til marks um það að við þurfum að taka upp ný vinnubrögð rétt eins og skýrsla þingmannanefndarinnar talar um í samskiptum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Við þurfum að geta hlustað hvert á annað óháð því hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, vegna þess að eins og einhvers staðar stendur „oft ratast kjöftugum satt orð á munn“ — það getur auðvitað átt við um stjórnarandstæðinga líka.