138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að við getum ekkert fullyrt um það hvað það hefði hjálpað okkur mikið að leggja annað mat á stöðuna að hafa Þjóðhagsstofnun á þessum árum. Það er mögulegt að það hefði eitthvað hjálpað okkur. En það var alls ekki þannig að við höfum verið að renna blint í sjóinn með engar áætlanir og engar forsendur. Þetta lá allt saman hér fyrir. Það var orðað þannig, man ég, hér í þingsölum og í þeim þjóðhagsspám sem við vorum með að við mundum þurfa að glíma við afar krefjandi hagstjórnarlegt verkefni sem mundi væntanlega leiða til þess að vextir Seðlabankans færu upp undir 8%. Við sáum alveg í kortunum að það mundi verða mikill viðskiptahalli. Við gengum þessa leið með opin augun vitandi að þetta yrði mjög erfitt. Við vissum það alveg. Svo komu aðrir utanaðverkandi þættir sem gerðu stöðuna enn erfiðari en við höfðum séð fyrir.

Ég vil síðan biðja hv. þingmann að blanda ekki saman tvennu, sem er staða ríkissjóðs við hrunið og afleiðingar fjármálakreppunnar fyrir ríkissjóð og efnahagslífið allt. Þessu tvennu má ekki blanda saman. Það hvernig við rákum ríkissjóð í aðdraganda hrunsins var á margan hátt mjög til fyrirmyndar. Staðan, nettóstaða ríkissjóðs inni í Seðlabanka 170 milljarðar í október 2008. Þannig að ríkissjóður var verulega vel settur og vel staddur til að takast á við vandann þegar krísan reið yfir. Það er síðan allt annað mál að í fjármálakreppu þegar bankar fara á hausinn koma upp endalaus vandamál sem mörg hver lenda í fanginu á ríkissjóði og útheimta mikla skuldsetningu og hallarekstur ríkissjóðs um nokkurra ára tímabil. Þetta eru tvö aðskilin mál.