138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans. Ég get alveg upplýst að ég deili skoðun með honum í ýmsu því sem hann tjáði sig um en þó fráleitt öllu. Vegna þess að skattstefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á árunum 2003–2007 bar á góma kvaddi ég mér hljóðs því að mér finnst ekki hægt að hlusta á þá túlkun sem þingmaðurinn viðhafði í ræðu sinni um afleiðingar og ágæti þeirrar skattstefnu án þess að það sé, sagnfræðinnar vegna, aðeins leiðrétt og túlkað á annan veg. Á tímum ríkisstjórnarinnar frá 2003–2007, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, jókst misskiptingin í samfélaginu meira en dæmi eru um á öðrum tímum. Jöfnunarhlutverki skattkerfisins var raskað með þeim afleiðingum að þeir báru þyngstar byrðarnar sem síst þurftu á því að halda, þ.e. lágtekjufólk og þeir sem verst stóðu í samfélaginu báru í raun og veru þyngstu skattbyrðarnar. Á þeim tíma voru gerð alvarleg hagstjórnarmistök með þensluhvetjandi stjórnunarháttum. Á þeim tíma var ráðist í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar á bullandi góðæristímum þegar allar klassískar hagfræðikenningar ganga út á að á slíkum tímum haldi stjórnvöld að sér höndum. Ég tel að sjálfsréttlætingar og hvítþvottur af þessu tagi sé ekki til bóta á þeim stað sem við erum núna þegar kemur að því að draga lærdóma til framtíðar.