138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega svo að bæði Seðlabanka og öðrum var vandi á höndum og það er mjög klemmd staða þegar menn eru komnir með eitthvað brothætt í hendurnar sem getur hrunið ef menn hósta eða stynja. Að sjálfsögðu skiljum við öll þær erfiðu aðstæður sem þarna voru uppi. En menn gátu a.m.k. látið það að vera að fara um lönd og álfur og reyna að eyða misskilningi um styrk íslenska bankakerfisins þegar svo var komið.

Nei, að sjálfsögðu var eðlilegt að Seðlabankinn reyndi innan þeirra marka sem einhver vitglóra var í að styðja við bakið á kerfinu og verða þess ekki sjálfur valdandi beint að það hryndi, ég skil alveg þær erfiðu aðstæður. En hann gat þó a.m.k. tekið betri veð og tryggingar fyrir þeirri fyrirgreiðslu, og hann gat líka bara gert það beint í staðinn fyrir þá hjáleið sem farin var með ástarbréfin í gegnum önnur fjármálafyrirtæki.

Þegar maður les greiningu rannsóknarnefndar Alþingis á þeim þætti koma tvö orð oftast fyrir: Óskiljanlegt eða illskiljanlegt, segir rannsóknarnefndin aftur og aftur um það hvernig Seðlabankinn stóð þarna að verki.