138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Doktorinn er svo sprenglærður í fræðunum að ég verð bara mjúkur í hnjáliðunum þegar ég þarf að tjá mig við hann um þessa hluti.

Að sjálfsögðu var það til bóta að það mynduðust innstæður í Seðlabankanum, en ég hef líka sagt margoft: Nema hvað? Af þessum 170 milljörðum voru upp undir 100 milljarðar eignasala, sala Símans og fleiri fyrirtækja á þessum árum. Skárra væri það nú þó að menn legðu það til hliðar að einhverju leyti. Vandinn var auðvitað sá að menn gátu látið eftir sér óábyrga hegðun, stórfelldar skattalækkanir sem núna veikja tekjugrundvöll samneyslunnar af því að gríðarlegar froðutekjur af viðskiptahallanum og þenslunni streymdu inn í ríkissjóð. Á öllum hagfræðilegum kvörðum hefði þarna þurft að standa öðruvísi að málum. Í raun og veru hefði afgangurinn og forðinn í Seðlabankanum í lok tímans þurft að vera miklu hærri. Og hefðu menn tekið inn þá tugi og aftur tugi milljarða í skatttekjur á hverju ári sem hefðu fengist á árunum 2003 til 2008 ef ekki hefði verið farið í skattalækkanirnar, þá stæðum við óendanlega mikið betur að vígi. Ekki bara vegna þess að við ættum (Forseti hringir.) meiri forða, heldur líka vegna þess að þenslan hefði ekki orðið eins mikil og við hefðum frekar ráðið við aðstæðurnar.