138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt, það hefur auðvitað alveg heilmargt komið fram í sambandi við þessa einkavæðingu og mikil framför að menn eru nú orðnir sammála um að átelja vinnubrögðin sem þarna voru og menn tilgreina ýmislegt í þeim efnum. Það er engu að síður eftir sem áður þannig að jafnvel nú síðustu mánuðina hafa verið að koma fram nýjar upplýsingar sem tengjast þessu ferli, svo sem eins og það hvernig var greitt fyrir bankana eða öllu heldur ekki greitt fyrir þá, þá afslætti sem voru veittir og fleira í þeim dúr. Formenn bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa tekið vel í það að við ræðum hér hvort það sé hægt að ná samstöðu um það sem ég kallaði kannski frekari rannsókn á ákveðnum afmörkuðum þáttum þessa máls.

Við skulum hafa í huga að við einkavæðingu bankanna var ríkið ekki bara seljandi, það var líka kaupandi. Hvað gerði kaupandinn með bankana í framhaldinu? Jú, það er að hluta til reynt að lýsa inn í það, en svo deyr það út m.a. vegna þess að rannsóknarnefndin og þingmannanefndin höfðu einfaldlega ekki tíma og aðstæður til þess að rekja þá þræði jafnlangt og mér býður í grun (Forseti hringir.) að ástæða kunni að vera til að gera.